Laun ASÍ félaga hækka um 6,5%

21.01.2016 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Skrifað verður undir samkomulag milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins klukkan fimm í dag um 6,5 % hækkun launa á almenna vinnumarkaðinum. Launahækkunin tengist rammasamkomulagi um nýtt samningamódel sem undirritað var í haust.

Grundvöllur samkomulagsins frá því haust er að laun hækki ekki meira en um 32% miðað við stöðu launa haustið 2013. Samið var á þeim nótum í samningum við t.d. lögreglumenn og sjúkraliða. Það þýddi hins vegar að bæta þurfti laun á almenna markaðinum til að ná markmiðinum um 32% hækkun. Einnig var kveðið á um að ríkið legði fram mótvægisaðgerðir til að gera fyrirtækjum kleift að hækka launin. Meginkrafa SA hefur verið að tryggingargjaldið lækki um 1,5 prósentustig og hafa viðræður staðið yfir við ríkisvaldið um það. Svo virðist sem komið hafi verið til móts við kröfur SA. Samkvæmt heimildum fréttastofu liggur þó ekki fyrir yfirlýsing um lækkun tryggingargjaldsins.

6,5% launahækkun

Samkvæmt samkomulaginu sem undirritað verður á eftir hækka iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóði úr 12% í 15%. Þær munu þó hækka í áföngum. Þá hækka laun um 3%. Samalagt þýða þessar launahækkanir 6,5% til viðbótar við þær hækkanir sem áður hafði verið samið um.

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV