Látnu gíslarnir frá 18 löndum

16.01.2016 - 12:09
In this grab taken from video by Associate Press Television, two unidentified armed men approach a vehicle, near to a hotel,  in Ouagadougou, Burkina Faso, Friday, Jan. 15, 2016.  Attackers struck an upscale hotel popular with Westerners in Burkina Faso&
 Mynd: AP  -  Associated Press Television
27 gíslar frá 18 löndum létu lífið í árás vígamanna á hótel og veitingastað í viðskiptahverfinu í höfuðborg Vestur-Afríkuríkisins Búrkína Fasó í gærkvöldi. Aðgerðum hers og lögreglu gegn vígamönnunum er lokið.

Það var í gærkvöldi að hópur vígamanna réðst inn á Splendid-hótelið í viðskiptahverfi Ouagadougou, höfuðborgar Búrkína Fasó. Umsátursástand skapaðist í og við hótelið og einnig við nærliggjandi kaffihús þar sem einnig var ráðist inn með skothríð og sprengingnum.

Það var svo snemma í morgun að hersveitir heimanna - með stuðningi sérsveitarmanna frá Frakklandi - réðust inn á hótelið. Þá var greint frá að 150 gíslar hefðu verið frelsaðir og þrír vígamenn skotnir. 33 gíslar voru særðir - þar á meðal ráðherra opinberra framkvæmda í Búrkína Fasó.

Þegar umsátrinu var að ljúka var greint frá að vígamenn sem komust undan hefðu hreiðrað um sig á öðru hóteli við sömu götu. Einn þeirra féll í átökum þar enn ekki virðist sem umsátur hafi skapast þar.

Ekki er fullvíst hve margir árásarmennirnir voru. Ráðherra upplýsingamála í landinu segir að þeir hafi verið 6 eða 7 og að þeir hafi gist á hótelinu dagana á undan. Innanríkisráðherra landsins segir að tveir þeirra hafi verið Afríkumenn og einn Arabi. Ekki sé ljóst með þjóðerni hinna.

Afríkuarmur hryðjuverkasamtakanna al-Kaída hefur lýst árásinni í nótt á hendur sér. Liðsmenn úr sama hópi gerður árás á hótel í Bamakó, höfuðborg Malí, í nóvember. 19 féllu í þeirri árás.

Sérfræðingar í málefnum al-Kaída segja í viðtölum við BBC að samtökin, AQIM, vilji marka sér stöðu sem ráðandi vígasamtök í Norður-Afríku og á Sahel-svæðinu og bola burt Íslamska ríkinu - sem hefur komist til áhrifa þar.

 

Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur fordæmt árásina í Búrkína Fasó, sem var áður nýlenda Frakka. Landið fékk sjálfstæði 1960.

Roch Marc Christian Kabore, sem tók við emæbætti forseta í Búrkína Fasó í desember, kom á vettvang undir hádegi og heimsótti hótelið þar sem árásin var gerð. Hann sagði árásina viðurstyggilega og gerða af huglausu fólki.