Lánshæfiseinkunn hækkuð

15.01.2016 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com/patrickgage
Matsfyrirtækið Standard og Poor's tilkynntu í dag að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs vegna langtímaskuldbindinga hefði verið hækkuð úr BBB í BBB+. Þá staðfestir það óbreytta einkunn til skamms tíma sem er A-2. Frá þessu er greint á vef Seðlabanka Íslands.

Þar bent á að í rökstuðningi sé miðað við árangur stjórnvalda frá því í fyrrasumar við að leysa vandamál sem staðið hafa í vegi losunar fjármagnshafta. Gert sé ráð fyrir því að skuldir ríkissjóðs og vaxtagreiðslur lækki næstu fjögur ár. Frekari hækkun á lánshæfismatinu sé undir því komin að höft verði afnumin án þess að raska viðskiptajöfnuði og fjármálastöðugleika. Það geti lækkað ef launahækkanir valdi óstöðugleika í efnahagslífinu, losun hafta tefjist eða lækkun gjaldeyrisforða verði til þess að þrýsta á gengi krónunnar.

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV