Landspítali: Læknar á Karólínska ákváðu aðgerð

09.02.2016 - 22:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Læknar á Karólínska sjúkrahúsinu tóku þá ákvörðun að gera plastbarkaígræðslu í sjúkling frá Íslandi en ekki læknar mannsins hérlendis, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. Aðferðin hafði ekki verið prófuð áður.

Plastbarkaígræðslur ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini eru til rannsóknar í Karólínska háskólanum og Karólínska sjúkrahúsinu. Þá er málið á borði lögreglunnar í Stokkhólmi. Krafan um að yfirstjórn Karólínska víki verður æ háværari.

Fyrsta plastbarkaaðgerðin var gerð á manni frá Íslandi, Andemariam Beyene, sem var með krabbameinsæxli í hálsi. Andemariam lést tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina, en líkaminn hafnaði plastbarkanum. Fram kom í fréttaskýringarþættinum Dokument inifrån á sænska ríkissjónvarpinu að Andemariam hefði verið sárþjáður næstum allan tímann eftir aðgerðina. Ári eftir aðgerð hafi barkinn verið mjög sýktur og hann þurfti rör í hálsinn til að geta andað. Krufningarskýrsla sýndi að barkinn hafði nánast alveg losnað í hálsi hans. Ennfremur segir í þættinum að Andemariam hafi ekki verið í eins bráðri lífshættu fyrir ígræðsluna og sagt var.

Tómas Guðbjartsson læknir tók þátt í aðgerðinni á Andemariam. Tómas vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu og ekki fékkst viðtal við yfirmenn Landspítala vegna málsins.

Í svari Landspítalans við fyrirspurn fréttastofu segir að eftir að Andemariam var vísað til Karólínska sjúkrahússins til meðferðar hafi það verið niðurstaða lækna þar, í samráði við sjúklinginn að bjóða þá aðgerð sem á endanum var reynd. Sjúklingurinn hafi verið haldinn banvænum sjúkdómi og engin hefðbundin úrræði til taks hér á landi. 

Önnur rannsókn ekki fyrirhuguð

Ennfremur segir að ekki sé fyrirhugað að taka málið til sérstakrar rannsóknar að nýju hérlendis. Landspítalinn hafi síðastliðið sumar látið gera formlega og ítarlega athugun á meðferð sjúklingsins á Landspítalanum og upphaflegri tilvísun hans til Karolínska. Einu athugasemdirnar sem fram komu þar voru að skráning í sjúkraskrá sjúklingsins hefði í sumum tilfellum mátt vera ítarlegri. Landspítalanum sé umhugað að rannsókn leiði í ljós hið sanna í þessu flókna máli og er þegar samstarfi við rannsakendur málsins erlendis.