Landsins fegursta nef

11.01.2016 - 15:16
Sigurbjörg Þrastardóttir var á útiskónum í Víðsjá í síðustu viku og velti því fyrir sér af hverju við virðumst vera svo upptekin við að búa til lista yfir alla mögulega hluti, m.a. nef.

 

Góðir hlustendur, hver er með fallegasta nef á Íslandi? Ég vona innilega að þið hafið lesið greinina, það er sumsé búið að velja átta fallegustu nef á Íslandi, ekki stærstu nefin, ekki mestu kónganefin, heldur, og tilvitnun hefst: „flott nef, því nef geta gefið karakt­er, gert fólk traust­vekj­andi, hlý­legt og sett flott­an svip á heild­ar­út­lit án þess að það sé bíó­mynda­nef.“ Tilvitnun lýkur. Það var Smartlandið á mbl.is sem vann þessa aðkallandi rannsóknarvinnu og listaði upp átta fallegustu nefin; sjónvarpsfréttakona komst á blað fyrir nef sem „harmónerar vel við andlitsdrættina“ (þetta var tilvitnun), tveir þingmenn komust á blað, annar þeirra var með „áberandi flottan nefhrygg“ – þetta var líka tilvitnun, ég hef aldrei heyrt orðið nefhryggur fyrr – og leikkona nokkur var í senn með „tignarlegt nef“ og „vinalegt“.

Reyndar er skv. erlendum stöðlum, eftir því sem segir í greininni allra best „ef fólk er ekk­ert sér­stak­lega að reka aug­un í nef þitt þegar það tal­ar við þig“ þannig að maður veit eiginlega ekki að hverju er verið að leita.

Fleiri spurningar

En gott og vel. Vindum okkur í næsta spursmál, góðir hlustendur, hvaða fátæklingur á helst skilið matarkörfu frá Víði? Því var svarað á Bylgjunni rétt fyrir jólin, fólk gat hringt inn og bent á þá sem sárasta hungrið áttu að seðja, og svo kom til kasta þarnæstu hlustenda að velja á milli þeirra þriggja sem helst áttu körfuna skilið. Þetta var í fréttum síðar kallað Hungurleikar Bylgjunnar og var eftir því sem mér skilst stöðvað áður en gekk alla leið – Víðir ákvað að gefa þrjár körfur í stað einnar, og ég vona, gott fólk, að þið hafið misst af þessum misheppnaða vinsældarleik.

Og það er ekki ólíklegt. Á þessum árstíma er nefnilega nóg að gera við að lesa sig í gegnum aðra lista, sumir tengjast jólabókaflóðinu, það er keppnin um besta titilinn, verstu bókakápuna, versta titilinn, bestu bókakápuna, söluhæsta höfundinn, besta ungmennabókahöfundinn, besta ljóðið, besta gagnrýnandann, gleymum heldur ekki keppninni um dýrustu jólatónleikana, mestu innkomu á jólatónleikum, fjölmennustu jólatónleikana, síðan er það krúttlegasti flóttamaðurinn, versti söngvari í áheyrnarprufum fyrir hæfileikakeppni í sjónvarpi, það er frægasti Evróvisjónfarinn – að endemum –, það er best greidda jólakveðjubarnið, nú, eða flippaðasti ráðherrann, það er stærsti lúserinn, feitasti lúserinn, eða sá grennsti, það er frægasti fanginn, myndarlegasti handrukkarinn, fallegasta skeggið, sætasti íslenski karlmaðurinn með sítt hár, þetta síðastnefnda var í þrautreyndu dagblaði, það var kynfræðslukona sem skrifaði, og … hvað getum við nefnt meira, já, ólíklegasti forsetaframbjóðandinn, skýrmæltasti jólakveðjulesarinn, lágvaxnasti pólfarinn, ofmetnasti listamaðurinn, I 23, Ingi 23, er einhver með bingó, O 71, bingó og blómvöndur handa húðflúraðasta atvinnumanninum í boltaíþrótt. Eða einlægustu eiginkonunni.

Riðlakeppni

Svona er þetta á okkar tímum, eilífur samanburður og formleg og óformleg riðlakeppni í mannlegum eiginleikum, niðurlægingu, útliti og kostum. Stundum tekur fólk þátt sjálfviljugt, til að mynda í fegurðarsamkeppnum eða söngvakeppnum og vex þar að afli og er reiðubúið að hlýða á niðurstöður dómara eða, eins og nú tíðkast, úrslit símakosninga, því í alltof mörgum tilvikum er það „þjóðin“ í gæsalöppum sem kýs og velur, lesist: hver á flesta vini í sinni sýslu, hver höfðar best til þeirra sem eru alltaf til í að senda SMS? Af hverju hringir enginn á Grund og spyr hvernig atkvæði hafi fallið yfir sjónvarpskökunni þar?

En enn oftar hefur fólk bara alls ekki skráð sig í neina keppni, það gefur til dæmis bara út bók eftir langa yfirlegu og uggir ekki að sér, les svo í blöðunum að titillinn á bókinni hafi þótt sá versti allt það ár, þetta henti unga konu í fyrra, hún er 28 eða 29 ára, ég vona að hún hafi ekki lesið téða grein, slíkt getur farið með fólk – en enginn sá ástæðu til að upplýsa hvort sjálf bókin væri vel heppnuð. Og ætli svangir og peningalitlir hafi í alvöru búið sig undir að innhringjendur á útvarpsstöð myndu fara að bera stöðu þeirra saman við aðra og gera upp á milli – hvert erum við eiginlega að fara?

Sakleysið? 

Fjölmiðlar eru ábyrgir fyrir flestum þessara „saklausu samkvæmisleikja“ eins og þetta er yfirleitt kallað, en það má benda á að vinnsla slíkrar greinar eða þáttar tekur tíma og pláss. Samt er það yfirleitt tími og pláss sem miðlarnir segja að skorti, þegar þeir eru spurðir hvers vegna þeir kafi ekki dýpra í þetta málið eða hitt. Og svo telja auðvitað smellirnir, um leið og maður smellir á greinina um flottasta nefið er maður samsekur og meðvirkur og getur ekkert sagt til þess að andmæla. Nema þetta: Ég smelli til þess að hafa orðrétt eftir þessa dómadagsvitleysu og benda á að það fer líka fram annars konar samkeppni á hverjum degi, hún er milli fjölmiðla og það eru notendur sem velja í huga sér bæði þann tignarlegasta og vinalegasta.

 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi