Landsframleiðslan eykst um 4% á þessu ári

29.02.2016 - 10:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsframleiðslan eykst um 4% á þessu ári og 3,1% á næsta ári samkvæmt nýrri endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofunnar. Spáin nær til áranna 2016 til 2021.

Verðbólgan fer í 3,9% á næsta ári

Í þjóðhagsspá Hagstofunnar segir að fjárfesting og einkaneysla knýi hagvöxtinn fyrstu ár spátímans. Árið 2016 er gert ráð fyrir 5,2% vexti einkaneyslu og 13,2% vexti fjárfestingar. Lágt olíu- og hrávöruverð, ásamt lítilli alþjóðlegri verðbólgu og gengisstyrkingu krónunnar hafa haldið verðbólgu á Íslandi í skefjum. Spáð er að verðbólga verði 2,5% á þessu ári,  aukist í 3,9% á næsta ári, en minnki  eftir það. Kjarasamningum flestra launþega var lokið í fyrra en samningatíðinni lauk þó ekki endanlega fyrr en endursamið var um kjör á almenna markaðnum nú  í janúar. Kjarasamningarnir hafa í för með sér miklar launahækkanir, segir í þjóðhagsspá Hagstofunnar, en draga jafnframt úr óvissu um launastig næstu árin.

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV