Landsbankinn sá ekki hagnað Borgunar fyrir

20.01.2016 - 19:40
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir bankann ekki hafa séð fyrir milljarða hagnað Borgunar, vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe. Formaður Samfylkingarinnar vill að sala bankans á hlut hans í Borgun verði rannsökuð.

Viðbúið er að kortafyrirtækin Borgun og Valitor hagnist um milljarða króna vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe. Viðskiptin hljóða upp á um 3.000 milljarða króna. Hagnaður íslensku kortafyrirtækjanna ræðst af heildarumsvifum viðskipta þeirra við Visa Europe.

Þegar Landsbankinn seldi 38 prósenta hlut sinn í Valitor til Arion banka, var sett inn ákvæði í kaupsamninginn um viðbótargreiðslu frá bankanum ef að yfirtökunni yrði. Viðlíka ákvæði er hins vegar ekki að finna í samningnum vegna umdeildrar sölu Landsbankans á 31,2 prósenta hlut bankans í Borgun, sem seldur var fjárfestum fyrir 2,2 milljarða króna á bak við luktar dyr í lok árs 2014.

Voru undir pressu að selja

Bankastjóri Landsbankans segir að verðmat bankans á Borgunarhlutnum hafi tekið mið af rekstrarsögu félagsins, og áætlunum þess um mikinn vöxt erlendis, sem og hlutabréfaáhættu sem slík útrás hefði í för með sér.

„Við vorum undir þrýstingi frá samkeppnisyfirvöldum að selja og við töldum okkur vera að fá gott verð. Við vissum af þessum Visa samningi, eða viljayfirlýsingu út í heimi, við sáum ekki beina tengingu af því að Borgun hafði eiginlega ekkert verið í Visa viðskiptum, þau höfðu fyrst og fremst verið Mastercard fyrirtæki. Það er ekki fyrr en að við seljum sem þeir fara í miklu meiri vöxt inn í Visa og fyrir vikið er þessi greiðsla sem þau eru að fá komin til vegna viðskipta eftir að við seldum, eitthvað sem við sáum ekki fyrir á þeim tíma,“ segir Steinþór Pálsson í samtali við fréttastofu.

Lengi verið orðrómur um yfirtöku Visa International

Fram hefur komið að stjórnendur Borgunar voru á meðal þeirra sem keyptu hlut Landsbankans í félaginu, eftir að hópur fjárfesta gerði bankanum tilboð í hlutinn. Lengi hafði verið uppi orðrómur um yfirtöku Visa International á Visa Europe, þegar fyrirtækin gerðu áðurnefnda viljayfirlýsingu á síðasta ári. 

„Þetta var svona frekar veik viljayfirlýsing 2014, og svo fara hlutirnir að gerast núna í haust 2015 sem leiðir til þessara samninga, sem eru já, fjárhæðirnar koma okkur á óvart. Þetta er mun hærra en nokkur held ég hafi séð fyrir.“