Landamæravandi Schengen fordæmalaus

07.01.2016 - 19:54
epa05021902 Swedish police gather a group of migrants off an incoming train at the Swedish end of the bridge between Sweden and Denmark, Malmo, Sweden, 12 November 2015. Sweden has announced the introduction of temporary border checks to control the flow
 Mynd: EPA  -  TT NEWS AGENCY
Innanríkisráðherra segir að vandinn sem ríki innan Schengen standi frammi fyrir sé fordæmalaus. Hann sé orðinn sérstaklega skýr hér á landi nú, þegar hann er farinn að hafa áhrif á frjálst flæði milli Norðurlandanna. Landamæraeftirlit hér er áfram óbreytt.

Innanríkisráðuneytið mælir með því að Íslendingar hafi vegabréf með sér á ferðum sínum. Vegna tímabundins landamæraeftirlits í Danmörku og Svíþjóð þurfi Íslendingar sem ferðast þangað að vera viðbúnir því að geta sannað á sér deili.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í sjónvarpsfréttum í gær að það megi alveg gera ráð fyrir því að stjórnvöld þurfi að setja aukna fjármuni og aukið eftirlit til þess að bregðast við og vísaði í hertar aðgerðir í Danmörku og Svíþjóð. „Landamæraeftirlitð varðandi Ísland er bara með sama hætti og það hefur verið undanfarin ár. En eins og ég segi þá kann að vera að ráðherrann sé að boða þarna einhverjar breytingar, það verður að koma í ljós.“, segir Haraldur Johanessen ríkislögreglustjóri. „Við fylgjumst mjög vel með framvindu mála erlendis, á Norðurlöndunum sérstaklega, en við höfum ekki breytt okkar framkvæmd varðandi landamæraeftirlitið með sama hætti og er að gerast á hinum Norðurlöndunum, það er alveg rétt. Hvað sem svo verður. Það verður að koma í ljós.“ 

Ólöf Nordal innanríkisráðherra er stödd ytra en í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu er haft eftir henni að vandinn sem Schengen-ríkin standi frammi fyrir sé fordæmalaus og hann verði að taka alvarlega. Vandinn og þær áskoranir sem honum fylgi verða sérstaklega skýrar fyrir okkur hér á landi þar sem hann sé farinn að hafa áhrif á frjálst flæði á milli Norðurlandanna. Því verði að styrkja sem allra fyrst ytri landamæri Schengen en á meðan það hafi ekki verið gert verði ríkin hvert fyrir sig að meta hvort herða þurfi eftirlit hjá sér.