Lakers lagði meistarana óvænt að velli

07.03.2016 - 03:51
Golden State Warriors guard Stephen Curry, center, moves the ball while Los Angeles Lakers forward Brandon Bass, left, and guard Marcelo Huertas, right, defend during the second half of an NBA basketball game in Los Angeles, Sunday, March 6, 2016. The Los
 Mynd: AP  -  FR170752 AP
Óvæntustu úrslit bandarísku NBA deildarinnar í körfuknattleik urðu í gærkvöld þegar arfaslakt lið Los Angeles Lakers sigraði besta lið deildarinnar og ríkjandi meistara Golden State Warriors örugglega, 112-95.

Fram að leiknum í gærkvöld hafði Golden State aðeins tapað fimm leikjum í deildinni en unnið 55. Liðið stefnir hraðbyri á met Chicago Bulls frá tímabilinu 1995 til 1996, sem sigraði 72 leiki og tapaði aðeins tíu. Lakers hafði hins vegar aðeins unnið 12 leiki. 

Tapið þýðir að Golden State sló enn eitt metið í NBA deildinni, því aldrei hefur lið með jafn hátt vinningshlutfall tapað fyrir liði með jafn lágt vinningshlutfall.
Sagnfræðingar voru fljótir að finna samhljóm í tapi þeirra í gær og mettímabili Bulls. Þetta var 61. leikur Golden State á tímabilinu, en Bulls tapaði einmitt stórt fyrir New York Knicks í sínum 61. leik fyrir tuttugu árum síðan.

Jordan Clarkson skoraði 25 stig fyrir Lakers í gærkvöld og D'Angelo Russell kom næstur honum með 21. Kobe Bryant, sem hættir eftir þetta tímabil og var að spila sinn síðasta leik gegn Golden State, skoraði 12 stig í leiknum.
Stephen Curry hafði sig furðu hægan, skoraði 18 stig og hitti aðeins úr einu af tíu þriggja stiga skotum sínum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV