Lágkolvetnafæði engin allsherjarlausn

16.10.2013 - 19:44
Mynd með færslu
Prófessor í næringafræði segir að lágkolvetna lífstíll sá, sem nú er í tísku, sé bóla sem geti haft óæskileg áhrif á heilbrigði þjóðarinnar. Lágkolvetna mataræði sé meðferðarúrræði sem henti takmörkuðum hópi fólks og sé engin allsherjarlausn fyrir almenning.

Lágkolvetna fæði inniheldur, eins og nafnið gefur til kynna, lítið af kolvetnum. Þetta mataræði er talið gott vopn í baráttunni við aukakílóin og meðal annars er þeim sem kljást við offitu ráðlagt að taka það upp. Þá eru kolvetni tekin út og fitu bætt inn í staðinn. 

Margir hafa gagnrýnt hvernig faglegar ráðleggingar um þetta mataræði hafa breyst í markaðssetningu á lágkolvetna lífstíl sem allsherjarlausn fyrir hvern sem er. Þegar þetta henti í raun takmörkuðum hópi fólks í skamman tíma. Enda virðast allskyns lágkolvetna kúrar fara eins eldur í sinu um þjóðfélagið. Lífstíls- og mataræðisbækur seljast grimmt, en eru þó mjög umdeildar og fjöldi lágkolvetnisklúbba er á netinu. Þetta gengur svo langt að sjáanleg aukning er í sölu á smjöri og rjóma.

„Þetta er kynnt sem lífstíll en í raun og veru er þetta meðferðarrúrræði. Þetta er kannski sambærilegt og að senda alla þjóðina á blóðþrýstingslækkandi lyf", segir Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands.

Ingibjörg segist sjálf aldrei myndi setja fólk á þennan kúr nema að hafa í kringum sig fagfólk sem gæti haldið vel utan um viðkomandi. Hún sé því ekki að gera lítið úr meðferðinni sem slíkri og gott ef fólk á lágkolvetna fæði sé að léttast. En þegar fólk sé farið að túlka hlutina eins og því sýnist sé það að bjóða hættunni heim.

„Við höfum meira að segja það mikið í höndunum að sýna fram á að það geti bara hreinlega verið skaðlegt", segir Ingibjörg.