Laganemi fær einingar fyrir ólaunað starf

12.02.2016 - 15:40
Flúgvél Wow Air, nefnd Wow Force One.
 Mynd: RÚV
Upplýsingafulltrúi WOW air segist undrandi yfir bréfi BHM þar sem kvartað er yfir því að flugfélagið óski eftir laganema í ólaunað starf. Um starfsnám sé að ræða þar sem metið sé til allt að sex ECTS-eininga og að reglum Háskóla Íslands fylgt varðandi starfið.

Í bréfinu, sem Erna Guðmundsdóttir lögfræðingur BHM sendir, er þess krafist að WOW greiði lágmarkslaun fyrir starfið sem felur í sér 160 vinnustundir á 4-8 vikna tímabili. Erna segir að lögum samkvæmt eigi að greiða fyrir starfið.

„Þetta er ekki að okkar mati starfsnám heldur er um að ræða ólaunað starf sem að verið er að óska eftir að fá einhvern til þess að sinna.“ Hún bendir á að þarna sé skilyrði að viðkomandi sé með háskólapróf og vísar í lágmarkslaun Stéttarfélags lögfræðinga og lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Í yfirlýsingu frá WOW segir að starfsnámið sé „...að öllu leyti í samræmi við reglur lagadeildar Háskóla Íslands um námsvist nemenda í framhaldsnámi við lagadeildina. Starfsnám er hluti af námi nemenda. Fyrir starfsnám sem samþykkt er að námsnefnd fá nemendur einingar sem eru metnar sem hluti af einingum til mastersgráðu viðkomandi að hámarki 6 ETSC einingar. Þess vegna var tekið fram í auglýsingu WOW að viðkomandi þyrfti að hafa lokið BA-gráðu. Samkvæmt reglunum er starfsnámið 160 klst. á 4-8 vikna tímabili.“

Samkvæmt vísindavef HÍ er 25-30 klukkustunda vinna að baki hverri ECTS-einingu og því vinnuframlag í samræmi við það.

Þá beinir WOW því til BHM að taka upp umræðuna um starfsnám við háskólana sjálfa þar sem fyrirtækið eigi ekki aðild að henni.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV