Lætur mál Atla líklega ekki kyrrt liggja

19.01.2016 - 06:29
Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar Birgissonar sem myrtur var af Atla Helgasyni í nóvember 2000, segir að líklega muni fjölskyldan ekki láta mál Atla kyrrt liggja. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun. Atla hefur verið veitt uppreist æru og hefur sótt um að fá lögmannsréttindi sín aftur. Birgir segir fjölskylduna þó ekki hafa tekið ákvörðun um hvort þau muni senda bréf til Lögmannafélagsins til að hafa áhrif á það hvort Atli fái meðmæli félagsins.

Kastljós fjallaði í gærkvöld um mál AtlaHann var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir manndráp í maí 2001. Samtímis var hann sviptur málflutningsréttindum. Hann sat inni í tíu og hálft ár og lauk afplánun 2010.

Innanríkisráðuneytið hefur veitt honum uppreist æru og hann hefur nú sótt um að fá lögmannsréttindi sín aftur. „Hann hefur aldrei nokkurn tímann gert eitt eða neitt til að sýna iðrun,“ segir Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar við Fréttablaðið í morgun. „Við munum sjálfsagt ekki láta alveg kyrrt liggja. Ég get ekki ímyndað mér að það sé einhver akkur fyrir lögmannafélagið að fá mann með þessa dómgreind.“

Mikið var fjallað um morðið á Einari Erni á sínum tíma. Atli var dæmdur í 16 ára fangelsi og sagði héraðsdómur að hann hefði reynt að leyna atburðinum og meðal annars losað sig við það sem hann taldi vera sönnunargögn. Héraðsdómur sagði árásina á Einar Örn hafa verið ofsafengna en Atli sló hann í höfuðið fjórum sinnum með hamri.