Lækurinn: úldnandi þaradræsur og dauðir kettir

03.04.2017 - 15:00
Þar sem nú er Lækjargata rann eitt sinn opinn lækur í gegnum höfuðborgina miðja. Hann rann eftir götunni sem þá var þrengri og út í sjó fyrir neðan Arnarhól.

Ýmsir hafa rómantískar hugmyndir um rennandi vatn inn í borg. Stundum hafa verið viðraðar tillögur um að opna lækinn aftur. En lækurinn var ekki þrifalegur á sínum tíma, alls kyns drasli var hent í hann, skólp átti greiða leið í hann, og stundum flutu þar dauðir kettir. Á þeim tíma voru opin skólpræsi í götum og lyktin ægileg. Þótt mannlífið á gömlum myndum virðist heillandi þá finnum við ekki lyktina. „Í þann tíma rann opinn lækur í gegnum höfuðborg vora og var kallaður Lækurinn. Í honum voru hornsíli. Stundum mátti sjá þar ál sem var að koma úr Saragossa-hafinu,“ sagði Halldór Laxness um lækinn í Innarsveitarkroniku.

Mynd með færslu
 Mynd: Þrándur Þórarinsson
Nokkurra ára gamalt málverk eftir Þránd Þórarinsson, nokkuð rómantísk sýn á lækinn.

Lækurinn var stundum kallaður Hin ilmandi slóð í háðungarskyni og átti til að flæða yfir bakka sína. Stærsta flóðið var 1881 og þá flæddi alla leið yfir á Austurvöll svo Lækjargata var ófær nema á bátum. Um það orti Matthías Jochumsson:

Æddi hrönn en hræddist þjóð,
hús og stræti flóa.
Sást ei þvílíkt syndaflóð
síðan á dögum Nóa.

Æpti þjóð með andköfum.
Ólán vort við kennum
sumpart leiðu syndunum 
sumpart slæmum rennum.

Auka frelsið til að drepa sig

Þjóðskáldið Benedikt Gröndal fór háðulegum orðum um lækinn í bráðskemmtilegri og ískrandi hæðinni frásögn sinni um Reykjavík aldamótaárið 1900: „Lækjarbakkarnir hafa fyrrum verið hlaðnir upp með grjóti en nú er það allt mjög fallið og ljótt útlits þar sem ekkert hefur verið um það hirt þó svo alltaf sé verið að tala um að prýða bæinn og stórfé fleigt út í ýmislegt annað. Áður voru grindur meðfram læknum bæjarmegin, en nú eru þær horfnar fyrir löngu. Líklega til að auka frelsið svo að hver geti drepið sig sem vill, eða eigi hægara með það.“

Málverk af Benedikt Gröndal eftir Ólaf Th Ólafsson.

Úldnandi þaradræsur

Einn helsti skrásetjari sögu Reykjavíkur, Árni Óla, sagði lækinn hafa verið hvimleiðan og bæjarbúar átt í eilífu stríði við hann. Hann hafi ekki komið tær og hvítfyssandi niður brekku, verið gruggugur og seinlátur og haft þann leiða sið að renna sitt á hvað. „Með hverju flóði snerist straumurinn við og þá varð hann saltur, og bar með sér þang og þaradræsur sem síðan úldnuðu í farveginum þar sem þær festust og þaðan lagði illan daun en enga blómaangan. Þessi lækur var ekki neinum að gagni. Engum veitti hann svölun í þessari vatnssnauðu borg því vatnið í honum var ódrekkandi.“

Árni Óla heldur líka fram að ekkert skáld hafi ort um lækinn því hann hafi ekki vakið slíkar kenndir í brjóstum, en það er nú ekki alveg rétt. Í hinni sígildu barnasögu Hendrix Ottósonar Gvendur Jóns og ég segir frá því hvernig strákarnir sigla á pramma frá tjörninni eftir læknum og út í sjó, þar til Þorvaldur pólití grípur í taumana og stöðvar þá. Þá er í ljóðabókinni Milli lækjar og ár eftir Sigríði Einars frá Munaðarnesi að finna rómantískar myndir af stemmningunni við lækinn:

Febrúarkvöldin
voru frostheil og lygn,
stjörnubjört kvöld
með iðandi norðurljósum.

Mynd með færslu
 Mynd: Kápa
Skáldkonan Sigríður Einars orti fallega um lækinn.

Læknum var lokað 1913 og honum veitt í steypt ræsi undir götunni. En það er eitt og annað sem enn minnir á lækinn, til dæmis götuheitið Skólabrú sem heitir eftir brúnni sem lá yfir lækinn. Í máli eldri Reykvíkinga er líka stundum talað um fyrir austan læk eða vestan læk, og jafnvel um fyrir ofan eða neðan læk.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Egill Helgason
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Vefritstjórn
Kiljan