Lægstu dagvinnulaun fyrir ræstingar

16.02.2016 - 13:44
Hönd í bláum hanska þvær krómaða málmplötu.
 Mynd: Gesine Kuhlmann  -  RGBStock
Fólk sem vinnur við ræstingar fær lægstu dagvinnulaunin af félagsmönnum í Flóabandalaginu og rúmlega helmingur ræstingafólks segist ekki fá viðbótargreiðslur, hvorki yfirvinnu né vaktaálag þó að það segist hafa unnið utan dagvinnutíma.

Meðaldagvinnulaun þeirra sem starf við ræstingar eru 262 þúsund krónur á mánuði og helmingur þeirra er undir 250 þúsundum. Þetta kemur fram í launakönnun sem gerð var hjá félagsmönnum í kringum áramótin.

Bjartsýni eykst 

Almennt segir á vef ASÍ að greina megi aukna bjartsýni hjá félagsmönnum. Fleiri eru í vinnu, fólk telur svigrúm til að hækka kaupið og sjö af hverjum tíu telja sig trygga í starfi. Fleiri eru sáttari við kaupið en í hittifyrra eða um þriðjungur. Tveir þriðju félagsmanna fá greiðslur aðrar en dagvinnulaun og gildir það um 86% bílstjóra eða tækjamanna. 65% félagsmanna telja að atvinnurekandi þeirra gæti borgað hærri laun. Þriðjungur  þeirra sem svöruðu fór í launaviðtal í fyrra og af þeim fengu tveir þriðju einhverja kjarabót umfram samningsbundnar hækkanir. 

 

Karlar í Flóabandalaginu vinna að meðaltali fimm stundum lengur á viku en konur.

Fjarvistir vegna veikinda aukast

Lengstan vinnudag vinna bílstjórar og tækjamenn eða um 51 klukkustund en byggingastarfsmenn vinna einum klukkutíma skemur. Þeim fjölgar stöðugt sem hafa verið eitthvað frá vinnu vegna veikinda. Á vef ASÍ segir að það leiði hugann að því hvort meiri fjarvistir séu afleiðing síaukins vinnuálags. Um helmingur félagsmanna var frá vegna veikinda í fyrra en 43% í hittifyrra og 38% árið 2011. Starfsfólk í fiskvinnslu var oftast frá vegna veikinda. 

Ungt fólk á ekki húsnæði

Þá er bent á að innan við helmingur félagsmanna býr í eigin húsnæði. Einungis 41% þeirra sem eru á aldrinum 25-34 ára býr í eigin húsnæði og bara 4% þeirra sem eru undir 25 ára aldri. Þetta endurspegli aðrar upplýsingar hjá ASÍ um hve illa þessi aldurshópur hafi orðið fyrir barðinu á afleiðingum hrunsins eftir 2008. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV