Kynlífsblæti ekki afbrigðileg samkvæmt könnun

10.03.2016 - 15:52
epa03809094 A customer tries on a kinky outfit, during the Gay Pride, in the leather and fetish shop Mr.B. in the Warmoesstraat in Amsterdam, The Netherlands, 31 July 2013. Amsterdam Gay Pride is a celebration of devotion towards equality for the gay,
 Mynd: EPA  -  ANP
Ýmis kynlífsblæti, sem enn eru skilgreind sem afbrigðileg í helsta fræðiriti sálfræðinga, eru mun algengari en áður var talið ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar í Kanada. Handbók sálfræðinga, sem er gefin út af bandaríska sálfræðisambandinu, kallast DSM og er nú í fimmtu útgáfu.

Þar er meðal annars listi yfir átta blæti sem eru sögð afbrigðileg en tæpur helmingur þeirra sem tóku þátt í kanadísku könnuninni sögðust hafa að minnsta kosti eitt af þeim blætum. Einn af höfundum rannsóknarinnar, prófessorinn Christian Joyal, segir að þetta kalli á endurskilgreiningu á því hvað sé venjuleg og hvað sé afbrigðileg kynferðishegðun.

Alls sögðust 35% aðspurðra hafa áhuga á að fylgjast með öðrum stunda kynlíf (voyeurism), 26% höfðu munablæti (fetish) og 19% voru masókistar að einhverju leyti. Ekki reyndist mikill munur á kynjunum hvað varðar þessa tíðni. Höfundar rannsóknarinnar segjast gera ráð fyrir að svipaðar tölur finnist þegar könnunin verði endurtekin í öðrum vestrænum ríkjum.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV