Kvótinn hefur kostað 28 milljarða

05.01.2016 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 28 milljarðar króna hafa farið út úr mjólkurframleiðslu á Íslandi síðastliðin 20 ár til fjármálastofnana og bænda sem selt hafa kvóta sinn. Með fjármagnskostnaði jafngildir það um 20 krónum á hvern framleiddan mjólkurlítra á þessum tíma, samkvæmt útreikningum Bændasamtakanna. Í drögum að nýjum búvörusamningum er stefnt að því að leggja niður mjólkurkvótann.

Fréttastofan hefur undir höndum minnisblað Bændasamtaka Íslands um væntanlega búvörusamninga. Þar kemur fram að samningunum sé ætlað að hvetja landbúnaðinn til sóknar, ekki undanhalds. Þeir séu hugsaðir fyrir bændur framtíðarinnar. Hinir nýju búvörusamningar gætu falið í sér mestu breytingar á landbúnaðarkerfinu í 30 ár. Því sé stefnt að lengri samningi, eða til næstu 10 ára. Fram kemur að samkvæmt samningsdrögunum verði ekki aðeins mjólkurkvótinn verði aflagður á samningstímanum, heldur einnig framseljanlegur stuðningur í nautgripa og sauðfjárrækt. Stuðningur muni miðast við framleitt magn og svonefndar gripagreiðslur. Þó verði ekki stutt við ótakmarkaða stækkun búa, í samningnum verði ákvæði um hámarksstuðning við hvern framleiðanda.

Offramleiðsla og verksmiðjubú

Kvótakerfið var á sínum tíma sett á vegna offramleiðslu. Ýmsir tala gegn því að leggja niður kvótann og lýsa áhyggjum af því að mjólkurframleiðsla lendi þá í sama öngstræti og áður. Eyfirskir bændur skoruðu fyrir skömmu á samninganefnd bændasamtakanna að setja í samninginn nýtt stýrikerfi til að hamla gegn offframleiðslu. Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra segir í Morgunblaðinu í gær að samningsdrögin styðji fremur verksmiðjubú en fjölskyldubú og skorar á bæði landbúnaðarráðherra og formann Bændasamtakanna að bregðast við. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda sagði í fréttum RÚV í gær að virða beri áhyggjur af offramleiðslu og hlusta beri á slík sjónarmið. Hann telji hins vegar að hægt sé að stýra framleiðslu með margvíslegum aðferðum og það sé gert víða um heim. Kvótakerfið verði að víkja, það sé framleiðendum alltof dýrt.

Varnaglar slegnir

Samkvæmt minnisblaðinu um samningsdrögin kemur fram að ýmsir varnaglar séu slegnir í samningsdrögunum vegna mögulegrar offramleiðslu. Nefna má áðurnefnt ákvæði um hámarksstuðning og ákvæði um endurskoðun samninga 2019 og 2023. Þá segir að hægt verði að grípa inn í óæskilega þróun, gerist þess þörf. Loks kemur fram í minnisblaðinu að fundað hafi verið með yfirmönnum í Arionbanka og Landsbankanum vegna veðhæfni búreksturs og mögulegrar gjaldfellingar lána vegna þess að kvótinn muni hverfa. Á þeim fundum hafi komið skýrt fram hjá yfirmönnum bankanna að breytingarnar raski ekki hagsmunum með óeðlilegum hætti. 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV