Kvenréttindakonur fengu köku ársins

19.02.2015 - 23:36
Mynd með færslu
Forsvarsmenn Landssambands bakarameistara mörkuðu upphaf sölu Köku ársins 2015 með því að færa Kvenréttindafélagi Íslands kökuna að gjöf í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Hallveigarstöðum í dag.

Stjórnarkonur Kvenréttindafélagsins efndu til kaffiboðs fyrir nágranna sína í húsinu. Við það tækifæri sýndu þær brot úr sögu kvennabaráttu á Íslandi í 100 ár á veggspjöldum.

Steinunn Stefánsdóttir, formaður Kvenréttindafélagsins, tók við kökunni og sagði við það tilefni að framundan væru fjölmargir viðburðir til að minnast afmælisins og bæði gaman og viðeigandi að tengja Köku ársins þessum tímamótum.

Alls bárust 22 kökur í keppnina í ár. Sú sem bar sigur úr bítum er úr smiðju Hilmis Hjálmarssonar. Hún er lagskipt og inniheldur m.a. súkkulaðibotn, kókosbotn, mulinn marengs og súkkulaðimús og er hjúpuð glansandi súkkulaði.