Kúbustjórn fordæmir fjandsamleg ummæli Trumps

17.06.2017 - 02:55
epa06032183 A woman watches the speech of US President Donald J. Trump at her house in Havana, Cuba, 16 June 2017. US President Donald J. Trump delivers remarks and participates in a signing on his policy for Cuba. Trump announced changes in the policy of
Kona í Havana á Kúbu fylgist með Trump flytja kúbverskum innflytjendum í Miami boðskap sinn um hertar aðgerðir gegn Kúbu.  Mynd: EPA  -  EFE
Kúbustjórn sendi frá sér yfirlýsingu á föstudagskvöld, þar sem „fjandsamleg orðræða" Donalds Trumps Bandaríkjaforseta er harðlega fordæmd. Vilji stjórnvalda í Havana til að halda áfram viðræðum og samstarfi við Bandaríkjastjórn á vinsamlegum nótum er jafnframt ítrekaður. Trump tilkynnti fyrr í dag að hann hygðist rifta samningnum sem forveri hans í Hvíta húsinu gerði við Kúbverja og innleiða nýjar viðskiptaþvinganir gagnvart Kúbu.

Þótt Trump hafi talað um að rifta samningnum eru boðaðar breytingar þó ekki mjög miklar, enn sem komið er. Reglur um ferðalög bandarískra ríkisborgara til Kúbu verða hertar nokkuð, viðskipti við tiltekið ferðaþjónustufyrirtæki sem tengist kúbverska hernum verða bönnuð og loks sagði forsetinn að þær viðskiptahindranir sem enn eru í gildi muni verða það áfram uns Raul Castro léti af harðstjórn sinni og sleppti öllum pólitískum föngum úr haldi.

„Við munum reyna að ná mun betri samningi fyrir kúbversku þjóðina og fyrir Bandaríkin. Við viljum ekki að Bandaríkjadollarar fari í það að styðja við einræðisstjórn sem beitir hervaldi til að arðræna og fara illa með íbúa Kúbu,“ sagði Trump í ræðu sem hann flutti kúbverskum innflytjendum í Miami í Flórída. Það er því ekki síður talsmáti forsetans en innihald ræðu hans sem fer fyrir brjóstið á Kúbustjórn.

„Afturhvarf til kúgunaraðferða fortíðar“

Í yfirlýsingu sinni fordæmir stjórnin "fjandsamlega orðræðu sem minnir á tíma opinberra átaka“ og „afturhvarf til kúgunaraðferða fortíðar.“ Þá harmar Kúbustjórn þennan neikvæða viðsnúning í samskiptum ríkjanna. „Öll áform um að breyta hinu pólitíska, efnahagslega og félagslega kerfi á Kúbu, hvort heldur með beinum þrýstingi ... eða með öðrum og lymskulegri aðferðum, eru dæmd til að mistakast,“ segir í yfirlýsingunni.

Batnandi samskipti frá 2013

Fulltrúar Obamastjórnarinnar og stjórnar Rauls Castros hófu leynilegar viðræður 2013, meðal annars að undirlagi nýkjörins páfa, Frans I. Afrakstur þeirra viðræðna, drög að áætlun um að koma samskiptum nágrannaríkjanna í eðlilegt horf, voru kynnt í árslok 2014 og formlegar viðræður háttsettra erindreka landanna hófust strax í ársbyrjun 2015.

Í apríl það sama ár tilkynnti Obama að Kúba yrði fjarlægð af svörtum lista bandarískra stjórnvalda yfir ríki sem styðja hryðjuverkasamtök og í júlí tóku ríkin upp formlegt stjórnmálasamband að nýju og opnuðu sendiráð hvort hjá öðru. Slakað hefur verið á hvers kyns viðskipahindrunum og þvingunaraðgerðum Bandaríkjanna gagnvart Kúbu allar götur síðan, þótt ekki hafi þær verið afnumdar að fullu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV