Krónan vill ekki að fólk sæki mat í ruslagáma

12.02.2016 - 17:28
Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar, segir það vera ábyrgðarhluta verslunarinnar að koma í veg fyrir að fólk hljóti skaða af því að neyta fæðu úr ruslagámum. Þess vegna séu gámar Krónunnar læstir.

„Við erum með gámana læsta og viljum helst ekki að fólk fari í þá. Af því að þarna blandast saman úrgangur sem getur smitað einhverri sýkingu í vöruna... Ég held að ábyrgðin sé meiri hjá okkur í verslunum, að við gerum það umhverfi fyrir viðskiptavininn að hann geti fengið þessa vöru með litlum tilkostnaði.“

Matarsóun er stórt og kostnaðarsamt vandamál í heiminum. Kristinn segir Krónuna reyna að lágmarka sóun eins og mögulegt er. „Við viljum koma til móts við þessa ábyrgð og viljum taka þátt í henni.“

Hann segir að Krónan hendi vikulega á bilinu einu til tveimur prósentum af magninnkaupum verslunarinnar, það sé vissulega mikið, en að þessi tala hafi verið hærri. „Áður fyrr hentirðu öllu. Um leið og það var dagstimplunarvandamál, þá bara hentirðu vörunni. Í dag máttu selja vöru sem er útrunnin, eins og niðursuðuvöru og ýmislegt annað.“

Nú þegar er hægt að kaupa útrunna vöru eða vöru á síðasta söludegi með afslætti. „Neytendur taka þessu opnum örmum. Við sjáum góða svörun við ávöxtum og grænmeti.“ Hann segir að í næstu skrefum verði kannað hvað hægt sé að vinna úr brauðmeti og mjólkurvörum.

Rætt var við Kristinn Skúlason um matarsóun verslana í Samfélaginu á Rás 1.

 

Mynd með færslu
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Davíð Kjartan Gestsson
vefritstjórn
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi