Krefst fundar með Sigríði

12.09.2017 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, óskaði í dag eftir opnum fundi í nefndinni með Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Jón Þór vill ræða framgöngu hennar í máli Roberts Downey. Hann vísar til niðurstöðu úrskurðarnefndar upplýsingamála um kæru fréttamanns RÚV sem krafðist aðgangs að bréfum meðmælenda Roberts þegar hann sótti um uppreist æru.

Jón Þór segir úrskurðarnefnd upplýsingamála hafa komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðuneytinu hafi ekki verið heimilt að leyna upplýsingum um málsmeðferð Roberts Downeys. Ráðuneytið neitaði að birta meðmælendabréf eða upplýsingar um bréf meðmælenda sem Robert Downey skilaði inn.

Þingnefndin fékk gögn málsins en nefndarmenn urðu að heita trúnaði um efni þeirra áður en þeir fengju að sjá þau. Nefndarmenn stjórnarflokkanna, að formanni nefndarinnar undanskildum, fóru af fundi nefndarinnar áður en gögnin voru lögð fram.