Krefjast þess að horfið verði frá niðurskurði

15.02.2016 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnir foreldrafélaga grunnskóla í Breiðholti skora á skóla-og frístundaráð að beita sér fyrir því að hagræðingakrafa sem borgaryfirvöld hafa sett á skóla-og frístundasvið verði dregin til baka þannig að tryggt verði að skólarnir geti sinnt sínum lögboðnu skyldum.

Fram hefur komið að Skóla- og frístundasviði sé gert að hagræða um 670 milljónir króna á þessu ári. Af því fást 70 milljónir með endurskoðun á mötuneytisþjónustu, til dæmis með auknum útboðum. 25 milljónir fást með því að breyta sundkennslu á unglingastigi og 20 milljónir sparast í minni fjarvistum með heilsueflingu.

Áskorun foreldrafélaganna í Breiðholti var komið á framfæri á fundi skóla-og frístundaráðs í liðinni viku. Þar segir að niðurskurður í skólastarfi hafi þegar verið umtalsverður síðustu misseri og nú sé svo komið að grunnþjónusta eigi mjög undir högg að sækja. Sérkennsla hafi dregist saman og allur stuðningur til barna með sérþarfir sömuleiðis. Fyrirséð sé, ef boðaður niðurskurður fræ fram að ganga, að enn frekari samdráttur verði í sérkennslu og stuðningi og það kunni að auka vanda barna seinna meir. 

Í bókun fulltrúa meirihlutans í skóla-og frístundaráði frá því í lok janúar segir að áhersla sé lögð á að draga úr húsnæðiskosnaði, meðal annars með auknu samstarfi grunnskóla og frístundar, kostnaði vegna fjarvista starfsfólks og lækka rekstrarkostnað mötuneyta, einkum með víðtækari útboðum til að tryggja hagstæðara innkaupsverð.
Á sama fundi í janúar lögðu áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjórnenda fram bókun þar sem fram kemur að mikill niðurskurður hafi verið í grunnskólunum eftir hrun. Hann hafi ekki verið bættur. Stærsta áhyggjuefnið sé að ef þessar hagræðingarhugmyndir borgaryfirvalda nái ekki fram að ganga að þá verði niðurskurðurinn tekinn annars staðar frá.