Krefjast þess að dánarbúið leiti sjóðanna

18.04.2017 - 23:03
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ættingjar Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa í Reykjavík, ætla að reyna til þrautar að fá dánarbú Ingvars Helgasonar og eiginkonu hans til að fjármagna leit að leynireikningum sem þeir telja tilheyra dánarbúinu. Ný krafa um þetta verður tekin fyrir á skiptafundi á morgun.

Leita týndra sjóða í útlöndum

Júlíus Vífill Ingvarsson sagði af sér sem borgarfulltrúi í fyrra eftir að upp komst að hann hefði stofnað aflandsfélag í Panama. Júlíus Vífill er sonur Ingvars Helgasonar, sem rak eitt stærsta bílaumboð landsins fyrir aldamót. Hluti erfingjanna segir að Ingvar hafi lagt umboðslaun inn á erlenda bankareikninga, eins og tíðkaðist á þessum tíma, og þessir sjóðir séu til.

Ættingjar Júlíusar Vífils fullyrtu í Kastljósi í fyrravor að hann hefði viðurkennt fyrir þeim að féð í aflandsfélagi hans væri sjóður foreldra þeirra. Júlíus Vífill þvertók fyrir þetta í skriflegu svari til Kastljóss, og sagði ótrúlega ófyrirleitið að halda því fram að hann hefði með einhverjum hætti gengið í eða sölsað undir sig sjóði í eigu annarra, sem væru gróf ósannindi og mannorðsmeiðandi.

Fékk ekki að leggja fé í leitina

Í fyrrasumar ákvað skiptastjóri dánarbús foreldra Júlíusar Vífils að láta búið greiða tæpar sex milljónir króna fyrir að fá erlenda rannsóknarfyrirtækið K2 til að leita týndu sjóðanna. Júlíus Vífill og einn bróðir hans sættu sig ekki við þetta og fór málið fyrir dóm.

Héraðsdómur leyfði að fé úr dánarbúinu yrði varið í rannsóknina, en Hæstiréttur sneri þeim úrskurði við í mars, sagði að ekki lægi annað fyrir en orðrómur um að Ingvar Helgason hefði átt bankareikninga í útlöndum, og skiptastjóra væri ekki heimilt að veita svo miklu fé í rannsóknina að eigin frumkvæði.

Nú hafa ættingjar Júlíusar Vífils hins vegar sjálfir, samkvæmt heimildum fréttastofu, lagt fram formlega kröfu við skiptastjóra um að dánarbúið verji fé í rannsóknina. Krafan verður tekin fyrir á skiptafundi á morgun.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV