Kostnaður hofs Ásatrúarfélagsins úr áætlunum

05.06.2016 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Bygging hofs Ásatrúarfélagsins hefur farið verulega fram úr fjárhagsáætlunum. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn verði um tvö hundruð milljónir í stað hundrað og þrjátíu, eins og upphaflega var áætlað. Þá verður það opnað tæpu ári seinna en búist var við.

 

Í mars í fyrra var tekin fyrstu skóflustungan að höfuðhofi Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð í Reykjavík. Hofið á að rísa rétt austan Nauthólsvíkur.  Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir að framkvæmdir gangi nokkuð vel. „Við erum aðeins á eftir áætlun en það verður steypt plata í þessum mánuði og sökkull og í kjölfarið á því förum við að sjá strúktúrinn rísa hægt og örugglega,“ segir Hilmar Örn. 

Upphaflega stóð til að taka húsið í notkun í haust en þær áætlanir standast ekki. Núna vonast menn til að húsið verði tilbúið í júlí á næsta ári. Hilmar Örn segir að of mikillar bjartsýni hafi gætt í upphaflegu áformunum. „Það var líka kannski ekki sama þensla á byggingamarkaði og er núna. Við finnum það að verkefnið okkar er ekki það stórt að menn stökkvi beinlínis á það,“ segir Hilmar Örn. 

Fyrri áfangi byggingarinnar verður um 380 fermetrar. Húsið verður úr timbri, það er að segja úr lerki úr Hallormsstaðaskógi. „Þá erum við komin með allt timburverkið sem verður notað sem er alíslenskt sem er sögulegt,“ segir Hilmar Örn. 

Hilmar Örn segir að byggður hafi verið upp sjóður sem dugi langleiðina fyrir kostnaðinum. Þá hafi verið vöxtur í félaginu. „Við sjáum að kostnaðurinn er að fara upp en ég held að þetta eigi allt eftir að smella. Við höfum reynt að hafa það sem prinsipp að taka engin lán í sambandið við þessa byggingu,“ segir Hilmar Örn.

Upphaflega kostnaðaráætlun var upp 130 milljónir, heldurðu að hún standist ekki? „Nei, hún er löngu brostin,“ segir Hilmar Örn. Hann telur að kostnaðurinn verði nær 200 milljónum.