Kosið um ESB á Hjaltlandseyjum

18.02.2016 - 22:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðild Breta að Evrópusambandinu er helsta umræðuefnið á leiðtogafundi ESB sem stendur nú í Brussel. Þingað verður áfram á morgun og allt þar til samkomulag tekst. Íbúar á Hjaltlandseyjum eru tvístígandi um hvernig kjósa eigi um aðild.

Hjaltlandseyjar - eyjaklasinn milli Færeyja, Noregs og Skotlands - tilheyra Skotlandi og þar með Bretlandi. Þar verður kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýjan aðildarsamning Breta að Evrópusambandinu sem verið er að semja um á leiðtogafundinum.

Þegar Bretar kusu um áframhaldandi aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, fyrirrennara Evrópusambandsins árið 1975, var hún samþykkt með tveimur þriðju atkvæða. Meirihluti íbúa Hjaltlandseyja vildi úr bandalaginu.

Alan Blain, formaður hjá menningarsjóði Hjaltlandseyja, segir að langt sé um liðið en hann sé viss um að hann hafi kosið með aðildinni það árið. Hann ætli að kjósa með því að Bretland verði áfram hluti af ESB. Hann trúi á alþjóðlegt samstarf og að Bretland verði í bandalagi Evrópuþjóða. Það sé jákvæðrara en að vera utan við það.

Skiptar skoðanir eru meðal annarra eyjarskeggja. Carole Laigne, hestarækandi, segir að hún geri líklega ekki upp hug sinn fyrr en rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað. Hún sé þó hálfpartinn á því að betri sé vondur kostur sem sé vel þekktur. Isla Mercer, starfsmaður í bjórgerð, segir að staðan fyrir hennar fyrirtæki sé góð. Ekki þurfi að greiða tolla og hægt sé að gera frjáls viðskipti á öllu ESB svæðinu. Mikið óöryggi myndi skapast ef Bretlandi gengi úr bandalaginu. Ekki sé vitað hvað komi á eftir því.

Bóndinn Martin Burgess lýsir hins vegar ESB sem miklu skrifræðisbákni og hann voni svo sannarlega að Bretar velji að ganga úr bandalaginu. Hann telur þess virði að taka áhættuna. Hann sé ekki svo barnalegur að hann átti sig á því að ekki verði allt gott daginn eftir þá niðurstöðu og vissulega gæti staðan orðið vond í nokkurn tíma á eftir en hann væri tilbúinn að taka þá áhættu.

Fari svo að Bretar gangi úr Evrópusambandinu telja stjórnmálaskýrendur og Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, að Skotar kjósi að ganga úr bandalagi við Breta og í Evrópusambandið.

 

Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV