Kornsláttur í Landeyjum í dag

09.01.2016 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Bændur í Akurey í Landeyjum skáru upp korn á ökrum sínum í dag, 9. janúar. Hafsteinn Jónsson bóndi sagði að það kæmi ekki til af góðu, ekki hefði gefist færi á korninu fyrr vegna veðurs. „Þegar kornið var orðið þroskað í haust tók við stanslaus rigningatíð. Það komu ekki þurrir dagar fyrr en allt var komið undir snjó“.

„Við erum alla vega fyrstir á þessu ári“, sagði Hafsteinn léttur í bragði þegar fréttamaður hitti hann þar sem hann var að þreskja á akrinum í dag. „Kornið er merkilega gott, það sem eftir er af því“. Á akri ekki langt undan var Örvar Arason að slá korn og Þráinn vinnumaður rakaði saman hálmi á þriðja akrinum. Félagsbúið í Akurey lagði 45 hektara undir korn á síðasta ári. En það voraði svo seint að kornið var mun seinna tilbúið en alla jafna. Þegar það gerist er ævinlega viðbúið að fugl, gæs og álft, hópist í akrana og skemmi þá. „Fuglinn skemmdi þriðjung af ökrunum í rigningunni í haust og þreskivélin nær ekki korninu þar. Örvar er að slá þann hluta. Við fóðrum kýrnar á korninu og hálminn notum við undir þær“.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV