Konur borga meira fyrir nákvæmlega sömu vöru

14.02.2016 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: Inspirally
Bleikur skattur eða „pink tax“ hefur verið nokkuð til umfjöllunar í erlendum miðlum undanfarið. Undir bleika skattinn falla annars vegar vörur og þjónusta sem konur þurfa greiða hærra verð fyrir. Í mörgum tilfellum er um nákvæmlega sömu vöru að ræða en hún verðlögð hærra til kvenna en karla.

Hins vegar er um vörur og þjónustu að ræða sem eingöngu konur nýta sér en ríkið skattleggur. Er svokallaður túrskattur oft nefndur í því samhengi.

Fréttablaðið fjallar um bleika skattinn í helgarblaði sínu en þar er gerð könnun á nokkrum vörum hérlendis. Dæmi eru um að ungbarnagalli fyrir stelpur sé 25% dýrari en sami galli fyrir stráka. Þá fann Fréttablaðið þó nokkrar vörur sem voru dýrari fyrir konur en karla. Einnig vörur sem sérstaklega eru markaðssettar fyrir börn.

CNN fjallaði um bleika skattinn fyrir skömmu en þar kom fram að samkvæmt nýlegri rannsókn neytendadeildar New York-borgar voru hárvörur að meðaltali 48% dýrari fyrir konur en karla. Þá reyndust rakvélar 11% dýrari fyrir konur og gallabuxur 10% dýrari. Jafnvel leikföng sem markaðssett eru sérstaklega fyrir stelpur reyndust 11% dýrari en leikföng markaðssett fyrir stráka.

„Af hverju ætti bleikt hægðalosandi lyf að vera 11% dýrara en blátt?“. Svo hefst grein Forbes um bleika skattinn. Þar er einnig fjallað um skýrslu The New York City Department of Consumer Affairs. Tekin eru fjölmörg dæmi um misjafna verðlagningu. Bleikur hjálmur í Target var 87% dýrari en sá blái og Levi´s rukkar 29% meira fyrir kvennagallabuxur.

Þá fjallar Guardian einnig um málið en fyrirsögn miðilsins segir að bleiki skatturinn sé salt í sárið sem launamunur kynjanna sé.

Margir notendur á Twitter eru duglegir við að benda á misræmi í verðlagningu með merkinu #PinkTax

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV