Konu vísað af fundi Trumps vegna trúar

A protester is removed by two officials as Republican presidential candidate Donald Trump speaks during a campaign stop at Winthrop University on Friday, Jan. 8, 2016, in Rock Hill, S.C. (AP Photo/Rainier Ehrhardt)
Öryggisverðir vísa Rose Hamid út af kosningafundi Trumps.  Mynd: AP  -  FR155191 AP
Samtök múslima í Bandaríkjunum krefjast þess að Donald Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi repúblikanaflokksins, biðjist afsökunar á því að kona sem iðkar múslimatrú hafi verið vísað út af kosningafundi hans. Öryggisverðir leiddu hana út af fundi í Suður Karolínu á föstudagskvöld á meðan aðrir í salnum bauluðu á hana.

Rose Hamid stóð upp á kosningafundi Trumps þegar hann sagði að Sýrlendingar sem væru að flýja stríð í heimalandinu væru í slagtogi með vígasveitum íslamska ríkisins. Hamid sat beint fyrir aftan Trump, var með hvítan klút yfir höfði og í bol með áletruninni „Salam, ég kem í friði."

Nihad Awad, stjórnandi samtaka múslima í Bandaríkjunum, segir atvikið senda hrollvekjandi skilaboð til bandarískra múslima, og annarra sem virða mismunandi trúarskoðanir fólks. Hann segir að Hamid eigi inni opinbera afsökunarbeiðni frá Trump. Awad vill að Trump sendi bandarískum múslimum skýr skilaboð um að þeim sé velkomið að taka þátt í stjórnmálum landsins.

Ekki í fyrsta sinn

Trump hefur áður gengið fram af múslimum í Bandaríkjunum. Í desember mælti hann fyrir því að engum múslimum yrði hleypt inn í Bandaríkin fyrr en stjórnvöld áttuðu sig á því hvað væri að gerast í heimsmálunum. Mánuði fyrr sagði hann frá því að hann hafi séð þúsundir múslima í Jersey City fagna árásunum á Tvíburaturnana 11. september 2001. Hann hélt áfram að ala á ótta fólks gagnvart múslimum á kosningafundi í Iowa-ríki í dag þar sem hann benti á árásina í San Bernardino í desember og árás á lögreglumann í Philadelphia í gær til merkis um ógnvænlegt hatur múslima.