Konan leidd fyrir dómara í næstu viku

12.02.2016 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: CC  -  Wikimedia
Íslensk kona, sem handtekin var á alþjóðaflugvellinum í Toronto í desember, verður leidd fyrir dómara í næstu viku. Yfirmaður hjá Konunglegu kanadísku riddaralögreglunni, segir rannsókn málsins standa yfir. Konan var með tæpt kíló af kókaíni í fórum sínum.

Málið var upphaflega til rannsóknar hjá lögreglu á Íslandi í samvinnu við kanadísk lögregluyfirvöld, sem síðar tóku það yfir. Lögregla hérlendis verst allra fregna og vill ekki svara því hvort yfirtaka lögreglu í Kanada þýði að það teygi ekki anga sína hingað til lands.

Konan var handtekin á alþjóðaflugvellinum Pearson þann 18. desember síðastliðinn af fulltrúum Konunglegu kanadísku riddaralögreglunnar, og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. 

„Ég get staðfest að fertug kona var handtekin á flugvellinum í Toronto fyrir að reyna að smygla 954 grömmum af kókaíni til Íslands,“ segir Louise Savard, yfirmaður hjá Konunglegu kanadísku riddaralögreglunni í samtali við fréttastofu. „Hún á næst að koma fyrir dómara þann 19. febrúar næstkomandi, en Landamæraeftirlit Kanada hefur sömuleiðis úrskurðað konuna í varðhald.“

Horfir fram á fangelsisvist

Louise segir rannsókn málsins standa yfir, og henni sé ekki kunnugt um hvort fleiri hafa verið handteknir vegna málsins. 

Mál konunar hefur ratað inn á borð utanríkisráðueytisins, og hafa fulltrúar á vegum þess verið í sambandi við konuna og reynt að verða henni að liði. „Konan horfir fram á fangelsisvist verði hún sakfelld, en hversu lengi veit ég ekki,“ segir Louise í samtali við fréttastofu.

Lögregla sögð hafa leitt konuna í gildru

Vísir sagði fyrst frá málinu í dag. Í umfjöllun vefmiðilsins um málið síðdegis segir að konan hafi boðið þremur islenskum vinkonum sínum með sér í skemmtiferð til Cancun í Mexíkó í nóvember í fyrra, að því er virðist í þeim tilgangi að gera þær að burðardýrum fíkniefna án þeirra vitundar. Þegar konurnar fór að gruna að maðkur væri í mysunni, eftir að golfsett sem konan sem skipulagði ferðina bað þær að hafa með sér, voru afhent íslenskum manni í Mexíkó, flýttu þær heimför sinni til Íslands og flúðu til Kanada. Þær ku hafa óttast að skipulögð glæpasamtök í Mexíkó væru að fylgjast með þeim.

Konurnar stungu vinkonu sína af og flugu frá Kanada heim til Íslands, en þær hafa verið yfirheyrðar af lögreglu hér samkvæmt heimildum Vísis. Konan sem grunuð er um fíkniefnasmyglið kom sér sjálf heim til Íslands, þaðan sem hún hélt fljótlega aftur til Kanda þar sem hún var gripin með fíkniefni, eins og áður segir. Íslendingurinn hefur hlotið sex ára fangelsisdóm hér á landi fyrir fíkniefnalagabrot, að því er fram kemur í frétt Vísis.

Samkvæmt frétt Vísis voru golfkylfur tveggja golfsettanna fylltar af kókaíni og þau send með póstsendingu áleiðis til Íslands. Sendingin var síðar stöðvuð í Toronto, og var konan handtekin þegar hún vitjaði hennar, eftir að henni var tilkynnt að hún þyrfti að sækja settin sjálf til Toronto. Vísir fullyrðir að það hafi verið lögregluyfirvöld sem nörruðu konuna aftur til Kanada.