Konan í Kanada var með nokkur kíló af kókaíni

12.02.2016 - 15:06
Mynd með færslu
Myndin er af kókaíni.  Mynd: CC  -  Picasa
Íslensk kona sem situr í varðhaldi lögregluyfirvalda í Kanada, eftir að hafa verið handtekin þar með fíkniefni, reyndist með nokkur kíló af kókaíni í fórum sínum þegar laganna verðir höfðu hendur í hári hennar.

Þetta herma heimildir fréttastofu. Mál konunnar hefur ratað inn á borð utanríkisráðuneytisins, og hafa fulltrúar ráðuneytisins verið í sambandi við konuna.

Vísir greindi fyrstur frá máli hennar í dag. Samkvæmt frétt Vísis teygir málið anga sína til Mexíkó og Kanada. Málið var upphaflega til rannsóknar hjá lögreglu á Íslandi í samvinnu við kanadísk lögregluyfirvöld, sem tóku síðar yfir rannsókn málsins.

Lögregla verst allra fregna

Runólfur Þórhallsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, vildi ekki svara spurningum fréttastofu um hvort það þýddi að smyglmálið teygði ekki anga sína til Íslands, og varðist allra fregna af málinu.

Vísir greinir frá því að konan hafi boðið þremur íslenskum vinkonum sínum með sér í skemmtiferð til Cancun í Mexíkó í nóvember í fyrra, að því er virðist í þeim tilgangi að gera þær að burðardýrum fíkniefna án þeirra vitundar. Konurnar flýttu heimför sinni til Íslands og flúðu til Kanada þegar þær fór að gruna að maðkur væri í mysunni, eftir að golfsett sem konan sem skipulagði ferðina bað þær að hafa með sér, var afhent íslenskum manni í Mexíkó. Þær ku hafa óttast að skipulögð glæpasamtök í Mexíkó væru að fylgjast með þeim.

Konurnar stungu vinkonu sína af og flugu frá Kanada heim til Íslands, en þær hafa verið yfirheyrðar af lögreglu hér samkvæmt heimildum Vísis. Konan sem grunuð er um fíkniefnasmyglið kom sér sjálf heim til Íslands, þaðan sem hún hélt fljótlega aftur til Kanada þar sem hún var gripin með fíkniefni, eins og áður segir.