Konan flutt til Patreksfjarðar á mánudag

13.02.2016 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn  -  RÚV
Dóttir konu sem flutt var frá Landspítalanum til Ísafjarðar fyrir mistök krefst skýringa á því hvers vegna hún var flutt án þess að aðstandendur hennar væru látnir vita. Ekkert slíkt hafi komið frá spítalanum. Vonast er til að hægt verði að flytja konuna til Patreksfjarðar á mánudaginn og gerir dóttirin þá kröfu að hún fái fylgd í það flug.

Konan, sem er á níræðisaldri, lá á bæklunardeild Landspítalans vegna fótbrots. Þegar dóttir hennar, sem býr í Reykjavík, ætlaði að heimsækja hana á þriðjudag, kom í ljós að hún hafði verið flutt til Ísafjarðar án þess að neinn aðstandandi hefði verið látinn vita af því. Birna Mjöll Atladóttir, önnur dóttir konunnar, segir að þegar óskað var skýringa á þessu hafi spítalinn fyrst gefið skýringar sem héldu ekki, en svo á endanum viðurkennt mistök. Til að bæta gráu ofan á svart millilenti flugvélin sem flutti konuna á Bíldudal þar sem annar sjúklingur var settur út. Konan þekkti þá rödd barnabarns síns, sem er sjúkraflutningamaður þar, og bað þá um að fara út líka á Bíldudal, en fékk það ekki. Barnabarnið vissi aldrei af ömmu sinni um borð í vélinni.

Birna Mjöll segir að nú vonist þau til að konan verði flutt bráðlega til Pateksfjarðar. „Það síðasta sem við heyrðum var að vonast væri til þess að hún væri búin að hvíla sig þannig að hún gæti verið flutt til Patreksfjarðar á mánudaginn. Og ég vona innilega að hún verði ekki látin fara í gegnum þetta ein. Það er ekki hægt.“ Hún óskar eftir því að starfsmaður frá sjúkrahúsinu á Ísafirði fylgi henni í fluginu.

Birna segir engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna konan var flutt án þess að aðstandendur væru látnir vita. „Við viljum svör. Ég þarf ekki afsökunarbeiðni, þetta hefur þegar gerst. Margir segja að við eigum að fá afsökunarbeiðni - mér er alveg sama um það. Ég vil að það verði litið á þetta sem stóran galla í heilbrigðiskerfinu okkar. Við eigum ekki að týna sjúklingum.“

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV