Koma ekki í veg fyrir þátttöku íþróttamanna

09.02.2016 - 01:34
epa05148955 Participants push a Rio 2016 Olympics sign during the opening ceremony presenting the Samba Schools' parade at the Sambodromo of Rio de Janeiro in Rio de Janeiro, Brazil, 07 February 2016.  EPA/MARCELO SAYAO
 Mynd: EPA  -  EFE
Ólympíunefnd Bandaríkjanna sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem það hrekur fréttir sem birtust í morgun. Þar var sagt frá því að íþróttamenn ættu að ekki að fara á Ólympíuleikana í Ríó í sumar hafi þeir áhyggjur af Zika veirunni.

Patrick Sandusky, talsmaður Ólympíunefndarinnar, segir fréttirnar frá því í morgun alfarið rangar. Bandaríska liðið hlakki til Ólympíuleikanna og nefndin muni aldrei reyna að koma í veg fyrir þátttöku íþróttamanna sem hafa tryggt sig inn á leikana.

Sandusky sagði nefndina hafa rætt við leiðtoga íþróttasambanda um þá áhættu sem mögulega er fólgin í að ferðast til þeirra landa þar sem veiran er útbreidd.

Mest áhrif á þungaðar konur

Veiran hefur breiðst út í Mið- og Suður-Ameríku, aðallega með moskítóbiti. Flestir sem smitast fá væg einkenni en einnig virðast tengsl á milli veirunnar og fósturskaða sem veldur því að börn fæðast með svokallað dverghöfuð og smáan heila. 

Flest smit hafa greinst í Brasilíu og hefur þunguðum konum víða um heim verið ráðið frá því að ferðast þangað. Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í sumar segjast ekki hafa áhyggjur af því að veiran eigi eftir að hafa áhrif á leikana. Þeir hefjast 5. ágúst en þá eru færri moskítóflugur á ferli

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV