„Kom oft blár og marinn heim“ 

13.04.2017 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég var kallaður illum nöfnum og margoft ráðist á mig og ég laminn alveg í köku,“ segir Vilhjálmur Roe en saga hans er sögð í þáttaröðinni Ástandsbörn á Rás 1.

Vilhjálmur er sonur íslenskrar konu og bandarísks hermanns. Það slitnaði upp úr sambandi þeirra þegar faðir hans var sendur frá Íslandi.

Hann þurfti að þola mikið misrétti vegna uppruna síns og skipti um föðurnafn allt þar til hann var fullorðinn til þess að reyna fela hvaðan faðir hans kæmi.

„Það var lítið spennandi. Maður var uppnefndur og lagður í einelti. Ég gerði allt sem ég gat til þess að komast hjá því að vera Ameríkani. Ég til dæmis tók upp föðurnafn stjúpa míns til þess að fela ættarnafnið.“

Hann segir að konur sem voru kenndar við hermenn á þessum árum hafi verið kallaðar öllum illum nöfnum og börnin þeirra fóru ekki varhluta af því.

„Það var bara sagt að þær væru bölvaðar kanamellur. Og ég fékk nú að heyra það að mamma mín hefði verið það.“

Hvernig var að heyra svona talað um móður sína? „Það var skelfilegt og ég reyndi nú að verja hana eins og ég mögulega gat en með misskemmtilegum árangri. Ég kom oft blár og marinn heim.“

Hægt er að hlusta á þættina hér.

Mynd með færslu
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Ástandsbörn