Knatthús klufu meirihlutann í Hafnarfirði

21.06.2017 - 21:21
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Hafnarfjörður
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi í dag tillögu um að byggja tvö knatthús í bænum fyrir á annan milljarð króna. Sjálfstæðismenn lögðu tillöguna fram en bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar, sem myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, studdu hana ekki.

Tillagan gerði ráð fyrir að byggð yrðu knatthús bæði í Kaplakrika, þar sem FH er með aðstöðu sína, og á svæði Hauka að Ásvöllum. Samkvæmt tillögunni átti þetta að kosta 300 til 400 milljónir árlega næstu fjögur ár, samtals 1,2 til 1,6 milljarða. Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, sagði í samtali við Vísi á mánudag að hún ætti frekar von á því en ekki að samþykkt yrði að vinna áfram að tillögunni.

Gengur þvert gegn nýjum og betri vinnubrögðum

Í dag var tillagan hins vegar felld á fundi bæjarstjórnar. Fulltrúar Bjartrar framtíðar lögðu fram bókun þar sem segir að tillöguna hafi skort nauðsynleg fylgigögn, til dæmis kostnaðarmat og greinargerð um afleiddan rekstrarkostnað af byggingunum.

„Þannig er ekki hægt að átt sig á því hvort tilgreindar upphæðir næstu 4 ár dugi til að fullgera verkið. Fljótlegur samanburður við vinnugögn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar benda reyndar til þess að tilgreindar tölur séu ofáætlaðar,“ segir í bókuninni. Þetta þarfnist því nánari skoðunar og undirbúnings, enda krefjist ábyrg fjármálastjórn þess, sérstaklega þegar meirihluti bæjarstjórnar eigi í hlut.

Í bókuninni segir enn frekar að tillagan gangi út á að binda stóran hluta framkvæmdafjár bæjarins til næstu fjögurra ára að minnsta kosti og hafa þurfi í huga að Hafnarfjörður standi frammi fyrir gríðarlegri uppsafnaðri þörf á viðhaldsframkvæmdum á næstunni eftir langvarandi fjárhagsvandræði frá hruni. Tillagan gangi þvert gegn þeim vinnubrögðum sem lagt hafi verið upp með í endurskoðun á rekstri bæjarins sem hafi skilað stórbættri stöðu, sem og endurskoðun á samningum við íþróttafélögin í bænum.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
 Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn Hafnarf  -  Hafnarfjarðarbær

Ætla að leggja tillöguna fram aftur í haust

Rósa Guðbjartsdóttir segir að Sjálfstæðismenn séu ekki af baki dottnir og ætli að leggja tillöguna aftur fram í haust í breyttri mynd. Málið sé mikilvægt – á annað þúsund krakkar æfi fótbolta bænum og aðstaðan sé orðin slök.

Kom það ykkur á óvart að samherjar ykkar í meirihlutanum styddu ekki tillöguna?
„Bæði og. Það er bara eins og gengur. Þetta er ekki alveg í fyrsta sinn sem það hefur gerst. Stundum koma upp skiptar skoðanir og við kippum okkur ekkert upp við það. Þetta er jákvætt og uppbyggilegt mál og við munum halda áfram að afla því fylgis í sumar. Ef það þarf að breyta tillögunni til að það náist þá erum við fús til þess,“ segir Rósa.

 

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV