Kjartan: Gerum ráð fyrir að þetta komist í lag

19.04.2017 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Við erum náttúrulega afar vonsvikin með hvernig til hefur tekist í byrjun þessa rekstrar,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í kvöldfréttum sjónvarpsins í kvöld. Menn bindi vonir við að komist verði fyrir þessa byrjunarörðugleika.

Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, sagði í kvöldfréttum RÚV að ekki væri hægt að tala um byrjunarörðugleika í tengslum við starfsemi verksmiðjunnar. Þá teldi Vinnueftirlitið að öryggisstjórnun og þjálfun starsmanna sé ekki í lagi. Vinnueftirlitið fer fram á heilsufarsskoðun á starfsmönnum vegna mengunar í kísilverinu. 

Kjartan segir að bærinn treysti á tekjur af skipaumferð um höfnina í Helguvík og þurfi á þeim að halda.

„Við bara gerum ráð fyrir og vonumst til að þetta komist í lag,“ segir Kjartan.

Kjartan segir að fulltrúar Reykjanesbæjar hafi fundað með stjórnendum United Silicon í dag. Afstaða bæjarins sé skýr: „Það verður enginn afsláttur gefinn af þessu til lengri tíma,“ segir Kjartan. Annað hvort komi menn málum í lag eða verksmiðjunum verði lokað.

Aðspurður um ábyrgð bæjarstjórnarinnar á að skipuleggja iðnaðarsvæðið í Helguvik jafn nálægt íbúabyggð og raun ber vitni, sagði Kjartan að það hafi verið gert seint á síðustu öld. Þá hafi verið gert ráð fyrir stóriðju sem skapi mikla skipaumferð um Helguvíkurhöfn. Bærinn hafi fjárfest þar fyrir milljarða króna og berum þungar byrðar vegna þess. Ábyrgðin sé þó auðvitað heilmikil. Bæjaryfirvöld og sveitarfélög hafi skipulagsvaldið, en þegar Helguvík var skipulögð sem stóriðja, hafi menn ekki vitað hvort þar myndi rísa álver eða aðrar verksmiðjur.