Kjarnorkusamningur fullgiltur innan skamms

16.01.2016 - 07:22
epa04996862 Iranian foreign minister Mohamad Javad Zarif welocmes and EU foreign policy chief Federica Mogherini  in Tehran, Iran, 28 July 2015. EU chief diplomat Federica Mogherini arrived in Iran on 28 July for a visit aimed at starting cooperation in
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, og Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, að loknum fréttamannafundi í Teheran í júlí 2015  Mynd: EPA
Utanríkisráðherrar Írans og Bandaríkjanna og utanríkismálastjóri Evrópusambandsins funda í Vínarborg í dag, um kjarnorkusamninginn. Samkvæmt samningnum eiga Íranar að binda svo um hnútana í sínum kjarnorkumálum, að viðsemjendur þeirra geti treyst því að þeir séu ekki færir um að framleiða kjarnorkuvopn og muni ekki verða færir um það í fyrirsjáanlegri framtíð að óbreyttu. Í staðinn verður losað um víðtæk viðskiptahöft, sem Íranar hafa sætt af hálfu Vesturveldanna áratugum saman.

Fastlega er reiknað með því að formleg staðfesting berist innan skamms, jafnvel í dag, frá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni, um að Íranar hafi staðið við sinn hluta samkomulagsins. Fundur þeirra Mohammads Javads Zarifs, Johns Kerrys og Federicu Mogherini í dag er talinn merki um að fullgilding samningsins sé á næsta leiti. Haft er eftir ónafngreindum heimildamanni úr bandaríska utanríkisráðuneytinu að búið sé að slétta úr nokkurn veginn öllum hnökrum.

Samningnum er fagnað víðast hvar og talin marka mikil og jákvæð tímamót í samskiptum Írans og Vesturlandatímamótum í alþjóðastjórnmálum og kjarnorkukapphlaupinu. Þeir sem helst eru tortryggnir og jafnvel fullkomlega andsnúnir samningnum eru harðlínumenn úr röðum repúblikana Vestanhafs og klerkastéttarinnar í Íran.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV