Kjaramál og lífskjör áberandi

13.09.2017 - 22:12
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Viðræður um kjarasamninga við hópa opinberra starfsmanna og lífskjör voru áberandi í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Hann lagði áherslu á stöðugleika í kjarasamningum og varaði við því að illa gæti farið ef of mikilla launahækkana yrði krafist. Formaður Samfylkingarinnar sagði að með þessu væru stéttarfélög skömmuð fyrir að krefjast betri lífskjara.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra talaði um komandi kjarasamningagerð við opinbera starfsmenn. Hann sagði að vinnumarkaðslíkanið væri ónýtt og að í því fælist stærsti einstaki veikleiki íslenskra efnahagsmála. Hann vísaði til vanda áttunda og níunda áratugarins þegar bæði hefðu verið miklar launahækkanir og mikil verðbólga. Hann lagði áherslu á efnahagslegan stöðugleika en sagði engan vísi að álíka vinnumarkaðskerfi hérlendis og í nágrannalöndunum. Hér væri það orðið að íþrótt að tala niður SALEK-samkomulagið.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, andmælti orðum forsætisráðherra. Hann sagði ræðu Bjarna dapurlegt framlag inn í komandi kjaraviðræður og að með henni væru stéttarfélög skömmuð fyrir að krefjast kjarabóta. Logi sagði að forsætisráðherra væri nær að læra að á Norðurlöndum snerist vinnumarkaðslíkanið ekki aðeins um efnahagslegan stöðugleika heldur líka félagslegan. Þar gætu raunverulegar lausnir í húsnæðismálum, auknar vaxtabætur og ríkari stuðningur við barnafjölskyldur orðið til að liðka fyrir kjarasamningum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, talaði um réttlæti og sagði að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlæti. Með því að biðja fólk að bíða eftir réttlæti væri verið að neita því um réttlæti. Hér þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt og bregðast við því að ríkustu tíu prósentin eigi þrjá fjórðu alls auðs í landinu, sagði Katrín. Hún spurði hvort hægt væri að kalla það samfélag réttlátt þar sem talsvert fleiri börnum er vísað úr landi heldur en fá dvalarleyfi.

Ríkisstjórnin býður upp á stöðnun en ekki uppbyggingu, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann spurði hvenær ef ekki núna væri tækifæri til að efla grunnþjónustuna og byggja upp. Hann gagnrýndi að ekki væri nóg að gert til að búa heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið fyrir framtíðina. Hann sagði að bæta þyrfti stöðu aldraðra og gera þeim auðveldara fyrir að taka virkan þátt í samfélaginu með því að taka strax upp sveigjanleg starfslok og hækka frítekjumörk.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lagði til róttækar breytingar á sveitarfélögum landsins. Hann vísaði til þess að sum sveitarfélög væru mjög lítil en önnur stærri, öll hefðu þó sömu skyldum að gegna gagnvart íbúum sínum. Benedikt sagðist sjá fyrir sér að Austurland, Vestfirðir og Suðurnes verði hvert um sig sterk sveitarfélög þar sem horft er á hagsmuni allra íbúa við stjórnun.

Tveir stjórnmálamenn litu til framtíðar og spurðu hvernig þjóðfélagið myndi breytast. Fjármálaráðherra velti fyrir sér hversu stór hluti Íslendinga myndi í framtíðinni verða af erlendu bergi brotinn og hvaða áhrif það hefði á íslenskt samfélag. 

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, horfði einnig til framtíðar, steig 30 ár fram í tímann og lýsti hvernig samfélagið hefði breyst. Borgaralaun voru innleidd í skrefum og kom öllum á óvart hversu mikill sparnaður fólst í því, sagði Birgitta þegar hún setti sig í spámannsstellingar. Framtíðarspáin birtist á meginstefnumálum Pírata um að uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá, tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum, endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku og endurvekja traust og tækla spillingu. 

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra lagði áherslu á geðheilbrigðismál í ræðu sinni. Hann sagði að styrkja ætti fjölbreytt úrræði, meðal annars með styrkingu Barna- og unglingageðdeildar. Einnig ætti að styrkja heilsugæsluna og fleiri þætti. Hann sagði aldrei hægt að samþykkja að sjálfsvíg væru eðlileg eða óumflýjanleg. Við vitum að nú þegar er mörgum bjargað og það er þakkarvert sagði Óttarr en tók fram að gera þyrfti betur. Þetta væri verkefni samfélagsins alls, kerfsins, ættingja og vina, og stjórnmálamanna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV