Kínverskur smyglhringur upprættur á Spáni

28.02.2016 - 05:49
epa04657648 Spanish police agents during the tribute act for the 11M terrorist attacks victims held at Alcala de Henares' train station in Madrid, Spain, 11 March 2015. Spain commemorates the 11th anniversary of the biggest terrorist attack in the
 Mynd: EPA  -  EFE
Lögregla á Spáni hefur upprætt umsvifamikinn kínverskan glæpahring, sem smyglaði fólki frá Kína til Evrópu í hundraða og þúsundatali. Yfir 100 manns voru handtekin á nokkrum flugvöllum á Spáni og á alþjóðaflugvellinum í Mílanó á Ítalíu í stórri lögregluaðgerð, sem var afrakstur ríflega tveggja ára rannsókna og samvinnu lögregluyfirvalda á Spáni, Ítalíu, Frakklandi og Bretlandi. Um 150 fölsuð vegabréf voru gerð upptæk í aðgerðinni.

Flestir hinna handteknu voru kínverskir ríkisborgarar sem keypt höfðu þjónustu af glæpagenginu og freistuðu þess að komast til Evrópu með fölsuð skilríki í farteskinu. Spænska lögreglan fullyrðir þó að höfuðpaurar glæpaklíkunnar séu einnig meðal þeirra sem handteknir voru. Þeir eru allir kínverskir, en stunduðu sína iðju á Spáni.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu var þetta „afar vel skipulagt“ glæpagengi, sem smyglaði viðskiptavinum sínum fyrst til Spánar, þar sem þeim var komið fyrir á öruggum stað. Þaðan var þeim komið hvert á land sem þeir vildu. Vinsælustu áfangastaðirnir, auk Spánar, voru Írland, Ítalía, Frakkland og Bretland. Spænska lögreglan komst upphaflega á snoðir um starfsemi smyglhringsins í tengslum við rannsókn á öðrum svipuðum, sem sérhæfði sig í að smygla Kínverjum til Evrópu í gegnum Barcelona og upprættur var árið 2013. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV