Kínverskum eldhúsáhöldum veitt sérstök athygli

15.01.2016 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: Karen Arnold  -  Public Domain
Matvælastofnun mun frá og með 1. febrúar næstkomandi fylgjast sérstaklega með kínverskum eldhúsáhöldum sem flutt verða inn til landsins. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir innflutning á eldhúsáhöldum sem losa óæskileg og mögulega skaðleg efni í matvæli.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar, en ný reglugerð mun taka gildi um næstu mánaðmót, sem fjallar um innflutning á eldhúsáhöldum sem unnin eru úr melamín og fjölamíð plasti sem upprunnin eru í Kína eða Hong Kong. 

Á vef stofnunarinnar segir að algengt sé að slík áhöld losi frá sér mikið magn af óæskilegum efnum og að markmiðið sé að koma í veg fyrir þau komist á markað hérlendis. Innflytjendur þurfa að tilkynna stofnuninni um komu sendinga sem innihalda fyrrnefndar vörur í síðasta lagi tveimur dögum áður en þær koma til landsins. Jafnframt mun stofnunin taka sýni til staðfestingar, af tíu prósentum allra slíkra sendinga. 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV