Kerfið mjög langt á eftir í umgengnismálum

07.03.2016 - 08:06
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir að svo virðist sem kerfið sé mjög á eftir í umgengnismálum.

Fram kom í fréttum um helgina að feður eru 85% þeirra sem höfðuðu svokölluð tálmunarmál í fyrra, þar sem öðru foreldrinu er meinað að hitta barn þrátt fyrir að hafa til þess rétt eða deila forræði. Guðmundur, sem var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun, segir að þetta sé ofbeldi, fyrst og fremst gagnvart barninu, en einnig megi líta á þetta sem kynbundið ofbeldi. Hann segir að vilji sé til að taka á þessu á Alþingi.

Spurður hvort flókið sé að taka á þessum málum segir Guðmundur að hægt sé að segja að öll ofbeldismál séu flókin. Þess vegna séu dómstólar til staðar. Þetta eigi hins vegar ekki að vera svo flókið. Lögin segi að tálmanir af hendi annars foreldrisins séu ólöglegar. „Það eru viðurlög við því, það eru dagsektir,“ segir Guðmundur. Meira að segja megi beita aðför, en það sé ótrúlega ömurleg leið. En hvers vegna er þeim ekki beitt? „Það sem er í þessu, eins og í svo mörgu, að það virðist vera að kerfið sé bara mjög eftir á,“ segir Guðmundur. Ekki sé hægt að benda á einhvern og segja að það sé honum að kenna.

Hlusta má á allt viðtalið hér að ofan.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV