Keiko Fujimori á sigurbraut í Perú

11.02.2016 - 04:03
epa05140552 Peruvian presidential candidate for the 'Fuerza Popular Party', Keiko Fujimori, participates in the Sixth International Anticorruption Conference of the Controllership in Lima, Peru, 02 February 2016. Peru will hold general elections
 Mynd: EPA  -  EFE
Keiko Fujimori, dóttir Albertos Fujimoris, fyrrverandi forseta, hefur afgerandi forystu í baráttunni um forsetaembættið í Perú. Hún nýtur stuðnings um 39% kjósenda, samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í gær, næstum tvöfalt meira en næsti maður, Julio Guzman, sem 20% segjast styðja. Þriðji maður, hagfræðingurinn Pedro Pablo Kuczynski, nýtur stuðnings 13 af hundraði þeirra sem afstöðu tóku, milljarðamæringurinn Cesar Acuna 9% og Alan Garcia, fyrrverandi forseti, nýtur hylli 5% kjósenda.

Til að ná kjöri þarf frambjóðandi að fá minnst 50% greiddra atkvæða. Fái enginn meirihluta í fyrstu umferð verður kosið milli tveggja efstu í annarri umferð í júní. 2011 tapaði Keiko Fujimori naumlega fyrir sitjandi forseta, Ollanta Humala, í seinni umferð kosninganna. Humala má ekki bjóða sig fram nú, þar eð stjórnarskrá landsins kveður á um að sami maður megi ekki gegna embættinu tvö kjörtímabil í röð.

Faðir Keiko, Alberto, situr af sér 25 ára fangelsisdóm sem hann hlaut árið 2009 fyrir spillingu og gróf mannréttindabrot á embættistíð sinni milli 1990 og 2000. Hann var fundinn sekur um aðild að fjöldamorðum dauðasveita hersins, sem beindust gegn meintum meðlimum í skæruliðasamtökunum Skínandi stígur á tíunda áratugnum. Þá var hann einnig fundinn sekur um fjárdrátt og mútuþægni. Humala efndi til uppreisnar gegn Fujimori um aldamótin og þurfti að vera í felum um hríð, en fékk sakaruppgjöf skömmu eftir að Fujimori var dæmdur frá embætti. 

Keiko og systkini hennar fóru þess á leit við Humala árið 2013 að hann náðaði föður þeirra vegna aldurs og heilsubrests, en forsetinn varð ekki við þeirri bón. Þrátt fyrir dóminn nýtur Alberto Fujimori enn töluverðrar virðingar og vinsælda í Perú. Skoðanakannanir benda til þess að það eigi einnig við um dóttur hans. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV