Keflavíkurflugvöllur sker sig úr

17.07.2017 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Guðni Sigurðsson  -  RÚV
Farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll á fyrstu sex mánuðum ársins fjölgaði um tæp 47 prósent og sker flugvöllurinn sig úr hópi annarra flugvalla á Norðurlöndum. Kastrup er sem fyrr stærsti flugvöllur á Norðurlöndum en Keflavíkurflugvöllur er í fimmta sæti.

Sænska blaðið Sydsvenskan fjallar í dag um stærstu flugvelli á Norðurlöndum, fjölda farþega sem um þá fóru á fyrri helmingi þessa árs og fjölgun frá sama tímabili í fyrra. 

Keflavíkurflugvöllur í fimmta sæti

Í samantektinni kemur fram að rúmlega 3,6 milljónir farþega hafi farið um Keflavíkurflugvöll, sem gerir hann að fimmta fjölmennasta flugvelli Norðurlandanna. Danski flugvöllurinn Kastrup er í fyrsta sæti með rúmlega 14 milljónir farþega, norski flugvöllurinn Gardermoen er í öðru sæti með rúmlega 13 milljónir og Arlanda í Stokkhólmi er þriðji. 

Keflavíkurflugvöllur skilur sig þó frá öðrum flugvöllum varðandi fjölgun frá sama tímabili í fyrra. Samkvæmt samantekt Sydsvenskan fjölgaði farþegum um 46,7 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins. Til samanburðar fjölgaði farþegum Billund um 9,1 prósent og Arlanda um 9 prósent en þeir vellir eru í næstu sætum á eftir Keflavíkurflugvelli yfir mestu fjölgunina. 

Efast um fjölgun ferðamanna

Líkt og fjallað var um á dögunum þá hafa forsvarsmenn rútufyrirtækja lýst efasemdum um að tölur um fjölgun ferðamanna séu réttar. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli fjölgaði farþegum hér á landi um 46,5 prósent á fyrstu fimm mánuðum ársins. Forsvarsmenn rútufyrirtækja segja hins vegar að þessi meinta fjölgun skili sér ekki í sama hlutfalli í rúturnar við Leifsstöð. Þannig skekki svokallaðir sjálftengifarþegar, þ.e. þeir sem koma með einu flugfélagi en fljúga samdægurs burt með öðru, ferðamannatalninguna meira en áður.