Kaupskipadeilan: Enn setið við samningaborðið

02.02.2016 - 01:56
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Verkfall vélstjóra og skipstjórnarmanna á kaupskipum Samskipa og Eimskipa hófst á miðnætti, þar eð samningar náðust ekki í tæka tíð. Fulltrúar deiluaðila sátu þó enn á samningafundum hjá ríkissáttasemjara um klukkan tvö í nótt og reiknuðu með að sitja þar enn um hríð. Samninganefnd skipafélaganna lagði fram tilboð um hálf-eitt leytið, og annað á öðrum tímanum í nótt.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags Vélstjóra og málmtæknimanna, vildi ekki greina frá innihaldi tilboðanna þegar fréttastofa náði tali af honum nú rétt fyrir fréttir, en segir að seinna tilboðið sé þess eðlis að menn sjái ástæðu til að liggja yfir því eitthvað áfram og séu því ekki á heimleið alveg í bráð. Þannig að þótt verkfall sé formlega skollið á má segja að ekki sé öll nótt úti enn. 

Verkfallið tekur til sjö kaupskipa Samskipa og Eimskipa. Eitt þeirra er þegar við bryggju í Reykjavík en hin tínast inn næstu daga og halda ekki úr höfn fyrr en samningar takast.