Kauphallarhrun eftir ásakanir um spillingu

18.05.2017 - 14:13
Michel Temer, forseti Brasilíu.
Michel Temer, forseti Brasilíu.  Mynd: EPA  -  EFE
Kauphöllinni í Sao Paulo í Brasilíu var lokað í dag skömmu eftir að opnað hafði verið fyrir viðskipti. Hlutabréfavísitala hafði þá fallið um tíu prósent. Gengi realsins - gjaldmiðils Brasilíu hefur fallið um fimm og hálft prósent það sem af er degi. Talið er að ástæða efnahagsóróans séu ásakanir á hendur forseta landsins, Michel Temer, sem var í gær sakaður um að reyna að múta vitni í viðamiklu spillingarmáli.

Brasilíska dagblaðið O Globo flutti í gær fréttir af því að Temer hafi rætt um að greiða fyrrverandi þingforseta landsins, Eduardo Cunha, fyrir þagmælsku. Cunha var dæmdur í fimmtán ára fangelsi í mars á þessu ári, fyrir spillingu, peningaþvætti og skattsvik.

Blaðið hefur að sögn undir höndum upptöku þar sem forsetinn ræðir mútugreiðslur til Cunha. Fréttin olli mikilli reiði í Brasilíu og fór fjöldi fólks út á götur til að mótmæla. Talsmenn forsetaembættisins segja hins vegar að ásakanir um spillingu eigi ekki við rök að styðjast.

Michel Temer varð forseti Brasilíu eftir að Dilma Rousseff var svipt embætti vegna embættisglapa. Hún var sökuð um að falsa ríkisreikninga til að tryggja sér endurkjör. Sem forseti þingsins fór Cunha fyrir því að svipta Rousseff embætti.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV