Kaup ríkisins á Felli í uppnámi

12.01.2017 - 07:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Jökulsárlón
Fjármálaráðuneytið ákvað að neyta forkaupsréttar að jörðinni Felli við Jökulsárlón tæpri viku eftir að frestur til þess rann út. Fréttablaðið greinir frá og segir að embætti sýslumanns á Suðurlandi virðist hafa talið 60 daga frest sem ríkið hafði frá þeim degi sem embættið samþykkti kaup Fögrusala á Felli en ekki deginum sem tilboðinu var tekið.

Jörðin Fell var seld nauðungarsölu í nóvember til að slíta sameign. Fögrusalir ehf. keyptu jörðina á 1.520 milljónir króna fjórða nóvember og samþykkti embætti sýslumanns á Suðurlandi kaupin 11. nóvember. Svo virðist sem 60 daga fresturinn, sem íslenska ríkinu var fenginn, hafi verið talinn frá þeim degi og þá endað 10. janúar. Spurningin er því hvort miða hefði átt við þriðja nóvember þegar tilboði frá Fögrusölum var tekið eða 11. nóvember. 

Í Fréttablaðinu segist Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður á Suðurlandi ekki geta svarað nákvæmlega fyrir málið. Unnið væri að því að finna skýringar innan embættisins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í fréttum 8. nóvember að hann vildi að ríkið nýtti forkaupsréttinn. Heimild var veitt á fjáraukalögum 2016 til að kaupa jörðina.