Katrín Jakobsdóttir vill kosningabandalag

Mynd með færslu
Katrín á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs í október 2015  Mynd: Anna Kristín Pálsdóttir  -  RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar, Græns framboðs, hyggst bera það undir flokksmenn á flokksráðsfundi um helgina, hvort leita skuli eftir formlegri samstarfsyfirlýsingu núverandi stjórnarandstöðuflokka fyrir næstu kosningar, þar sem því er heitið að þeir muni vinna saman eftir kosningarnar. Fréttatíminn greinir frá þessu og hefur eftir Katrínu að þetta sé hugmynd að einskonar kosningabandalagi.

Segist Katrín ekki vita til þess að flokkar hér hafi áður sameinast um það fyrirfram að vinna að tilteknum málum eftir kosningar. Þau þrjú mál sem hún vill setja á oddinn eru uppbygging velfarðarkerfisins, jöfnuður og umhverfisvæn atvinnustefna.

Í stjórnmálaályktuninni sem Katrín hyggst leggja fyrir flokkinn segir að stjórnmálamönnum og -flokkum sem vilji byggja upp norrænt velferðarkerfi og hafa sjálfbærni og umhverfissjónarmið í hávegum í atvinnu- og byggðamálum, beri skylda til að stilla saman strengi sína. Kjósendur þurfi skýran valkost, og til að það megi verða þurfi þeir að hafa skýra hugmynd um hvaða flokkar hyggist vinna saman eftir kosningar og að hvaða málefnum.

Frétt Fréttatímans má lesa hér.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV