Karpa um byggingaráform við Tollhúsið

09.01.2016 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra segir það rangt hjá borgarstjóra að hann hafi sem varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar getað spornað gegn áformum um þrjátíu þúsund fermetra byggingar við Tollhúsið. Það sé furðulegt að borgarstjórinn reyni að gera áhuga forsætisráðherra á skipulagsmálum tortryggilegan.

Forsætisráðherra segir það undarlegt að borgarstjóri reyni að gera það tortryggilegt að forsætisráðherra tjái sig um byggingaráform við Tollhúsið í Reykjavík. Forsætisráðherra gagnrýnir áformin harðlega. Borgarstjóri sagði í hádegisfréttum að fáir hafi haft betri tækifæri en forsætisráðherra til þess að hafa áhrif á uppbyggingaráform við Tollhúsið í Reykjavík. Forsætisráðherrann hafi verið varaformaður skipulagsráðs borgarinnar þegar skipulagið var auglýst en hafi ekki gert meiriháttar breytingar á því.

„Þetta er ekki rétt hjá honum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við Fréttastofu RÚV. „Skipulagið á þessum reit var samþykkt í maí 2006 þegar hann var sjálfur formaður skipulagsráðs, löngu áður en ég kom í skipulagsráðið sem var seinni part 2008, ég byrjaði þar í ágúst 2008. Rúmum mánuði seinna varð efnahagshrunið og menn töldu sig vera lausa við þessi 2007-áform eins og talað var um þetta þá,“ segir Sigmundur Davíð. 

Furðar Sigmundur sig á því að borgarstjóri setji þessa gagnrýni fram?

„Já ég geri það. Annars vegar vegna þess að þetta er ekki rétt hjá honum og hins vegar vegna þess að mér finnst undarlega nálgun hjá borgarstjóra að hjóla í manninn og reyna að gera það eitthvað tortryggilegt að ég tjái mig um þetta. Miklu frekar ætti hann að svara gagnrýni sem er sett fram og taka þátt í umræðum um efni málsins,“

Er alveg eðlilegt að forsætisráðherra tjái sig svona opinskátt um skipulagsmál Reykjavíkurborgar?

„Já, mér finnst það. Ég er nú reyndar nágranni líka, þeir eru hérna handan við götuna,“ segir Sigmundur Davíð en viðtalið er tekið fyrir utan stjórnarráðshúsið í Lækjargötu. „En því til viðbótar þá er þetta mál sem allir borgarar eiga að láta sig varða, allir Íslendingar. Þetta er höfuðborgin okkar allra og að sjálfsögðu hljótum við að vilja gera hana sem best úr garði, draga fram styrkleika miðbæjarins á meðan við höldum áfram að byggja kannski stærri byggingar annars staðar,“ segir Sigmundur Davíð.