Karólínski háskólinn fylgdi ekki reglum

04.02.2016 - 20:10
Birgir Jakobsson landlæknir telur að Karólínski háskólinn hafi ekki farið að reglum við umdeildar plastbarkaígræðslur. Hann fagnar óháðri rannsókn á Karólínska sjúkrahúsinu en hann var forstjóri sjúkarhússins þegar aðgerðirnar voru gerðar.

Plastbarkaígræðslurnar hafa verið í fréttum undanfarið eftir að fram kom í sænska ríkissjónvarpinu að ígræðslan hafði ekki verið prófuð á dýrum áður en plastbarkarnir voru græddir í menn. Aðspurður hvort hann hafi vitað þetta, segir Birgir ekki svo vera. „Nei, ég hafði enga hugmynd um það og ég man ekki eftir að sú spurning hafi komið upp því að því að eins og þetta var raunverulega kynnt af Karólínska Instituted eða háskólanum þá var þetta aðferð sem að hefði  gefist vel í tilraunasambandi,“ segir Birgir.

Birgir á ekki von á því að verða sjálfur til rannsóknar. Hann hafi ekki tekið ákvörðunina um að framkvæma aðgerðirnar.

Fagnar rannókninni

Birgir fagnar því að málið verði rannsakað ofan í kjölinn. Margt í heimildarþættinum hafi komið á óvart. „Verulega,“ segir Birgir. Hann tekur sem dæmi að í þættinum var gefið til kynna að Andemariam Beyene, fyrsti plastbarkaþeginn, hafi ekki verið eins fársjúkur og sagt var. „Miðað við þær upplýsingar sem ég fékk frá byrjun, þá komu fram upplýsingar um að íslenski sjúklingurinn hafi verið frískari en verið var látið í veðri vaka, fyrir mér allavega, í samtali við lækna hér á Íslandi.“

Farið framhjá reglum

Birgir neitaði að framlengja ráðningu Macchiarinis við spítalann árið 2013. Hann segist átta sig á því núna að regluverk hafi verið brotið. „Það er augljóst mál að mínu mati ef við lítum á þetta eftir á og ferlið eins og það var frá byrjun og hlutverk Karólínska Instituted (háskólans) að þarna var farið framhjá raunverulega rútínum sjúkrahússins um það hvernig við vinnum að svona málum. Þær voru hreinlega brotnar, því að við vorum búin að vera vinna að þessum málum í mörg ár - hvernig á að vinna með fyrirtækjum og svo framvegis - og það var búið að gera það á mjög góðan hátt, það var algjörlega farið fram hjá því,“ segir Birgir.