Karlmaður í haldi grunaður um vinnuþrælkun

19.02.2016 - 08:54
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson  -  Mýrdalshreppur
Karlmaður af erlendu bergi brotinn er í haldi lögreglunnar á Suðurlandi grunaður um vinnuþrælkun. Hann var handtekinn í Vík eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar á Suðurlandi sem naut aðstoðar frá lögreglunni á Suðurnesjum, af höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra og ríkisskattstjóra

Þetta staðfestir Þorgrímur Óli Guðmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Maðurinn hefur ekki verið yfirheyrður og Þorgrímur Óli vildi ekki gefa upp hvort farið yrði fram á gæsluvarðhald yfir manninum.

Visir.is greindi fyrst frá málinu í gærkvöld.

Þorgrímur Óli vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið, sagði lögregluna hafa farið í aðgerðir í gærdag og að tvær erlendar konur hefðu verið frelsaðar sem grunur léki á að maðurinn hefði haldið í vinnuþrælkun.

Þorgrímur Óli vildi hvorki gefa upp hvers konar atvinnustarfsemi maðurinn hefði stundað, né hvernig lögreglan hefði komist á snoðir um málið.  

Lögreglan hefur sent frá sér stutta yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni.

Maður handtekinn vegna gruns um vinnumansal. Lögreglan á Suðurlandi handtók í gærdag erlendan karlmann í Vík í Mýrdal...

Posted by Lögreglan á Suðurlandi on 19. febrúar 2016

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV