Kári bað Sigmund Davíð afsökunar

06.02.2016 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, notaði tækifærið í upphafi Vikulokanna á Rás 1 í morgun til að biðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra afsökunar á því að hafa kallað hann lítinn offitusjúkan tveggja ára dreng í nýlegu viðtali í Grapevine.

„Og skulda ég svo sannarlega hæstvirtan forsætisráðherra afsökunar á því hvernig þetta kom út,“ sagði Kári. Þetta hafi verið sér að kenna. En þetta liggi svolítið í þýðingunni og samræðum við blaðamann Grapevine sem náði kannski ekki öllum smáatriðum. Hann segir að einn samstarfsmanna sinna hjá Íslenskri erfðagreiningu hafi haft á orði um daginn að þeir Sigmundur Davíð væru eins og tveir feitir litlir tveggja ára strákar sem væru að rífast um leikfang. „Það var það sem ég var að reyna að koma til skila í þessum orðum mínum og endaði á að vera einhliða árás á þann sem ekki var til staðar til að verja sig og það þykir mér leiðinlegt. Sigmundur er að mínu mati skemmtilegur, skýr, dýnamískur og glæsilegur ungur maður og engin ástæða til að tala um hann á þennan hátt þó svo að okkur greini á um forgangsröðun í íslensku heilbrigðiskerfi.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV