Karadzic í 40 ára fangelsi fyrir þjóðarmorð

24.03.2016 - 14:47
epa05228997 Bosnian Serb wartime leader Radovan Karadzic (R) sits in the courtroom for the reading of his verdict at the International Criminal Tribunal for Former Yugoslavia (ICTY) in The Hague, The Netherlands, 24 March 2016. The former Bosnian-Serbs
 Mynd: EPA  -  ANP POOL
Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag dæmdi í dag Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba í stríðinu á Balkanskaga, í 40 ára fangelsi fyrir þjóðarmorð og stríðsglæpi. Hann hafi átt stóran þátt í dauða yfir sjö þúsund manna í Srebrenica fyrir 20 árum.

Stríðsglæpadómstóllinn dæmdi Karadzic sekan um tíu ákæruatriði af ellefu. Í dóminum er hann meðal annars sagður bera ábyrgð á þjóðarmorðinu í Srebrenica fyrir rúmum 20 árum. Hersveitir Bosníu-Serba myrtu yfir sjö þúsund íslamska karlmenn og drengi á nokkrum dögum eftir að þær lögðu Srebrenica undir sig ellefta júlí árið 1995. Þarna var komið undir lok stríðsins í Bosníu þar sem að minnsta kosti hundrað þúsund manns féllu. Það var mesta mannfall í stríði í Evrópu frá síðari heimsstyrjöld.

Dómstóllinn dæmdi hann einnig sekan um glæpi gegn mannkyninu fyrir aðgerðir hersveita hans í borginni Sarajevo sem kostuðu nærri tólf þúsund manns lífið. 

Karadzic var leiðtogi Bosníu-Serba í stríðinu á Balkanskaga og er hæst settur af þeim sem dæmdir hafa verið eftir upplausn Júgóslavíu. Réttarhöldin hafa verið álitin ein þau mikilvægustu í stríðsglæpamáli frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.

Réttarhöldin hafa staðið yfir í átta ár. Karadzic, sem varði sig sjálfur, hefur haldið fram sakleysi sínu og sagt að hugsanlegir glæpir á þessum árum hafi verið framdir af mönnum sem ekki hafi verið undir hans stjórn.  

Eftir að stríði lauk árið 1995 fór Karadzic huldu höfði, en var handtekinn í Belgrad árið 2008 og framseldur dómstólnum í Haag. 

Réttarhöldum yfir Ratko Mladic, fyrrverandi herforingja Bosníu-Serba, er enn ekki lokið og er ekki búist við að dómur verði kveðinn upp fyrr en á næsta ári.